Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ekki eintómir karlar með álpappírshatta

Mynd: Jim Lo Scalzo / EPA

Ekki eintómir karlar með álpappírshatta

10.01.2021 - 13:00

Höfundar

Kannanir sýna að stór hluti Bandaríkjamanna trúir á samsæriskenningu um að djöfladýrkendur og barnaníðingar hafi náð undirtökum á stjórnkerfinu. Kenningin er tengd hópi sem kallast QAnon og voru meðlimir hans áberandi í árásinni á þinghúsið í Bandaríkjunum í vikunni.

Við höfum flest setið límd við fréttir frá Bandaríkjunum síðan á miðvikudag þegar hópur réðst inn í þinghúsið í Washington DC. Innrásin hefur verið kölluð tilraun til valdaráns og hópurinn að baki tilrauninni kallaður ýmsum nöfnum í fjölmiðlum.

Við höfum séð myndirnar, þetta er upp til hópa hvítir karlmenn á miðjum aldri, margir klæddir fötum í felulitum, skreyttir fánum og táknum sem vísa í öfgakennda þjóðernishyggju, nýnasisma og yfirráð hvítra. Einnig má sjá stafinn Q á mörgum úr hópnum, sem er vísun í QAnon samsæriskenningahópinn sem Donald Trump hefur daðrað við til að sækja sér fylgi. Þekktur fylgjandi QAnon, maður að nafni Jake Angeli og er kallaður Q Shaman, var til að mynda áberandi í innrásinni þar sem hann valsaði um ber að ofan, með hyrndan loðhatt á höfði, húðflúraður ýmsum táknum sem flokkuð hafa verið sem haturstákn.

En hvað er QAnon?

„QAnon er sprottið af þriggja eða fjögurra ára gamalli samsæriskenningu. Þetta byrjaði á síðu sem heitir 4chan þar sem póstar frá aðila sem kallaði sig Q byrjuðu að dúkka upp,“ segir Hulda Þórisdóttir stjórnmálasálfræðingur sem hefur rannsakað samsæriskenningar og hópa sem aðhyllast þær.

Þessi nafnlausi maður sagðist hafa aðgang að innsta hring bandarískra stjórnvalda og hefði því innsýn og þekkingu sem aðrir hefðu ekki. „Hann byrjaði að deila í véfréttarstíl skilaboðum um að djúpríkið væri að undirbúa yfirtöku. Þetta djúpríki væri stjórnmálamenn og alls konar elíta, meðal annars Hollywood-leikarar, sem væru líka djöfladýrkendur og barnaníðingar og þeir ynnu að því að taka yfir og réðu nú þegar yfir neðanjarðarstarfsemi þar sem börn væru flutt á milli.“ Kenningin segir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafi vitað af þessu djúpríki, hann sé að vinna gegn kerfinu og sá eini sem geti upprætt það.

Helmingur Bandaríkjamanna er ekki tilbúinn að hafna samsæriskenningunni

Hulda segir að til hafi orðið samfélag í kringum þessa kenningu og aðrar sem sprottið hafa upp á vefsvæðum. „Þetta hefur undið upp á sig og er í dag eins konar allsherjarsamsæriskenningarsamfélag í dag. Það trúir því til að mynda að kórónuvírusinn sé búinn til viljandi á tilraunastofu í Kína. Sömuleiðis með 5G-kerfið, bólusetningarnar og svo framvegis. Það er þarna undirliggjandi og allt um kring að Trump sé sá sem muni bjarga heiminum og því svo mikilvægt að styðja hann.“

Nýleg skoðanakönnun sýnir að stór hluti Bandaríkjamanna trúir þessum kenningum. 17% trúa því að hópur djöfladýrkenda og barnaníðinga sé að reyna að ná tökum á stjórnvöldum og fjölmiðlum og 37% til viðbótar segjast ekki vita hvort það sé satt eða ekki.

„Þannig að það er helmingur Bandaríkjamanna sem er ekki tilbúinn að hafna þessari hugmynd. Þannig að þetta er enginn minnihlutahópur og það er nýleg könnun frá Bretlandi sem segir um 20% fólks. Það eitt og sér er áhugavert og sýnir þetta vantraust og rof milli stjórnvalda og almennings og auðvitað líka rofið í því hvaðan fólk fær upplýsingar og hverju það treystir.“

Lykilatriði að hlusta og skilja

Hópurinn sem er ginnkeyptur fyrir samsæriskenningum er fjarri því einsleitur segir Hulda. Þetta eru ekki eintómir einmana karlar með álpappírshatta í kjöllurum foreldra sinna. „Það er bara alls ekkert svoleiðis, það er fullt af vel menntuðu fólki, og alls konar fólk sem trúir samsæriskenningum. En það sem þau eiga sameiginlegt er mjög lítið traust gagnvart yfirvöldum.“

Hvað er þá til bragðs að taka? Hvernig er best að ná til fólks sem trúir þessum kenningum? Hulda segir að það þýði ekkert að reyna að tala um fyrir fólki sem aðhyllist samsæriskenningar, það verði bara til þess að það standi fastar á sínum skoðunum.

„Það er lykilatriði að hlusta og skilja hvaðan þessar hugmyndir koma. Auðvitað hefur þetta alvarlegar afleiðingar og ég legg ekki svona samsæriskenningar að jöfnu við viðurkenndar skýringar á hlutum. Besta leiðin til að draga úr því að fólk trúi samsæriskenningum er hreinlega að koma í veg fyrir að það myndi sér þær til að byrja með. Það er ofsalega erfitt að eiga við þær þegar fólk er búið að mynda þær. Það eina sem virkar er að einhver sem þau álíta úr sínum hópi, sem kannski áður aðhylltist samsæriskenningarnar en hefur afneitað þeim, það er eina manneskjan sem hefur trúverðugleika til að tala um fyrir fólki.“

Halla Harðardóttir ræddi við Huldu Þórisdóttur stjórnmálasálfræðing um samsæriskenningar í Samfélaginu á Rás 1.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Maðurinn með hornin handtekinn og kærður

Stjórnmál

Tókst Bandaríkjamönnum að kæfa valdarán í fæðingu?

Stjórnmál

Stuðningsmenn Trumps réðust inn í bandaríska þingið

Stjórnmál

Heimsglugginn: Árásin á þinghúsið í Washington