Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Yfirskattanefnd fellir úr gildi úrskurð vegna Isavia

09.01.2021 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Yfirskattanefnd hefur fellt úr gildi úrskurð ríkisskattstjóra í máli Isavía og gert embættinu að taka málið til meðferðar og uppkvaðningar úrskurðar að nýju. Það snýst um uppgjör á virðisaukaskatti en innsendar virðisaukaskattskýrslur félagsins hafa ekki verið afgreiddar frá árinu 2016. Isavia telur sig eiga inni 5,2 milljarða vegna málsins.

Deilan snýst um svokallaðan núllskatt. Félagið fær þá endurgreiddan virðisaukaskatt af aðkeyptum vörum og þjónustu en þarf ekki að skila útskatti.

Í úrskurði yfirskattanefndar frá því um miðjan desember kemur fram að ríkisskattstjóri taldi Isavia ekki eiga rétt á þessu þar sem það gæti ekki talist vera í samkeppni við atvinnufyrirtæki. Þetta væri fyrirtæki ríkisins og engri samkeppni frá atvinnufyrirtækjum væri til að dreifa hér á landi hvað varðaði rekstur Keflavíkurflugvallar og innheimtu félagsins á lendingargjöldum, flugverndargjöldum, farþegagjöldum og stæðisgjöldum.

Forsvarsmenn Isavia mótmæltu þessu harðlega. Þeir sögðu Keflavíkurflugvöll vera rekinn á áhættu félagsins með tekjum af starfseminni í beinni samkeppni við aðra alþjóðaflugvelli innan Evrópska efnahagssvæðisins. Rekstur innanlandsflugvalla byggi að stærstum hluta á þjónustusamningi við ríkið sem væri endurnýjaður árlega.

Yfirskattanefnd hafnaði rökum ríkisskattstjóra og sagði að ganga mætti út frá því að þeir sem sæju um rekstur alþjóðaflugvalla  gætu talist eiga í samkeppni sín á milli um viðskipti flugfélaga. Var úrskurður ríkisskattstjóra því felldur úr gildi og honum gert að úrskurða um málið að nýju.

Fram kom í  Viðskiptablaðinu fyrir tveimur árum að málið gæti haft veruleg áhrif ef niðurstaðan yrði Isavia í óhag. Í umfjöllun blaðsins kom fram að félagið teldi sig eiga inni 5,2 milljarða.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV