Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Tugmilljarða viðsnúningur til hins verra

09.01.2021 - 19:15
Rekstur tíu stærstu sveitarfélaga landsins hefur versnað um rúma þrjátíu milljarða eftir að Covid faraldurinn hófst. Aðeins tvö af þessum sveitarfélögum gera ráð fyrir að skila rekstrarafgangi á þessu ári.

 

Óhætt er að segja að mikill viðsnúningur hafi orðið í rekstri sveitarfélaga frá því faraldurinn hófst fyrir tæpu ári síðan. Tekjustofnar hafa dregist saman og útgjöld aukist.

Miðað við fjárhagsáætlanir tíu stærstu sveitarfélaga landsins er ljóst að róðurinn verður þungur í ár. Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Akureyri, Reykjanesbær, Garðabær, Mosfellsbær og Árborg gera öll ráð fyrir hallarekstri. Aðeins Akranes og Fjarðabyggð áætla að skila afgangi í ár.

Ríkisstjórnin hefur reynt að mæta vanda sveitarfélaganna með beinum og óbeinum aðgerðum, þar á meðal fjárstuðningi upp á allt að þrjá milljarða. Ráðherra sveitarstjórnarmála útilokar ekki að gripið verði til frekari aðgerða.

„Það er auðvitað þannig að við höfum haft áhyggjur af því að faraldurinn valdi okkur talsverðum búsifjum á árinu 2021. Og þess vegna var í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við sveitarfélögin í haust sagt að við myndum halda áfram að fylgjast með og grípa til þeirra aðgerða sem að þyrfti til þess að allir kæmust í gegnum þetta svona heilskinnaðir,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Árið 2019 skiluðu tíu stærstu sveitarfélögin samanlögðum afgangi upp á rúma 22 milljarða. Samkvæmt bráðabirgðatölum nam hallareksturinn í fyrra fjórum og hálfum milljarði króna. Hallinn á þessu ári stefnir í 8 milljarða. Þetta er viðsnúningur upp á rúma þrjátíu milljarða á aðeins tveimur árum. 

 

Höskuldur Kári Schram
Fréttastofa RÚV