Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Tókst Bandaríkjamönnum að kæfa valdarán í fæðingu?

Mynd: - / EPA

Tókst Bandaríkjamönnum að kæfa valdarán í fæðingu?

09.01.2021 - 13:27

Höfundar

Hvenær og hvernig tekst að gera valdarán? „Stundum takast valdarán svo skýrlega að einn snöggur atburður leiðir til þess að nýr maður tekur öll völd á einni nóttu og heldur þeim,“ segir Kristrún Heimisdóttir. „Mörg dæmi eru um slíkt - en ekki í Bandaríkjunum.“

Kristrún Heimisdóttir skrifar (pistillinn var fluttur í Víðsjá 7. janúar):

Heimurinn fylgist agndofa með forysturíki vestursins, öflugasta herveldinu og handhafa gjaldmiðils heimsins engjast, eftir því sem tilburðir forseta Bandaríkjanna líkjast meir og meir valdaránstilraun. Það var langt gengið þegar Dick Cheney varaforseti Bush yngri safnaði saman öllum varnarmálaráðherrum sem eru á lífi til útgáfu sameiginlegrar yfirlýsingar til hersins og og allra hermanna í Bandaríkjaher um að þeir sjálfir persónulega muni bera refsiábyrgð á gjörðum sínum, jafnvel þó þeir hafi hlýtt skipunum æðsta yfirmanns hersins, Donald Trump. Nú er sá maður búinn að senda stormsveit sína á þinghúsið og fjórir eru látnir eftir vopnuð átök. Ljóst er að væg öryggisgæsla gerði stormsveitinni kleift að komast inn í húsið, bæði þingsalinn og skrifstofur þingmanna. Augljóst er að Cheney vissi við hverju þyrfti að búast.

Þrjátíu og fimm valdarán voru framin í heiminum á áratugnum frá 2000 til 2010. Frá 1950 á sjöunda hundrað. Algeng fræðileg skilgreining á valdaráni er yfirtaka framkvæmdavalds með valdbeitingu eða hótun um valdbeitingu, yfirleitt framkvæmd af her, lögreglu eða vopnuðum hópum. Stundum takast valdarán svo skýrlega að einn snöggur atburður leiðir til þess að nýr maður tekur öll völd á einni nóttu og heldur þeim. Mörg dæmi eru um slíkt - en ekki í Bandaríkjunum. Valdarán hafa ekki verið hluti af sögu Bandaríkjanna en forsetamorðin, á Lincoln og Kennedy, gegnsýra hana. Raunar hafa Bandaríkin beitt, skipulagt og stutt valdarán og litið á það sem hluta af eigin utanríkisstefnu. Illræmdasta slíkt tilvik er þegar Salvador Allende forseti Chile var myrtur og herinn tók völdin.

Mikilvægir og minnisstæðir sigrar lýðræðis á valdaránum eru misheppnuð tilraun Antonio Tejero herforingja til að ræna völdum á Spáni 1981, hann gerði innrás í þinghúsið þar sem til stóð að útnefna forsætisráðherra, og misheppnuð tilraun til valdaráns 1991 meðan Mikhail Gorbachev var í sumarfríi. Ég man að Arnór Hannibalsson sagði við Ólaf Sigurðsson varafréttastjóra RÚV þann dag að þetta væri „augljóslega valdarán í skötulíki“. Ég man eftir að hafa 10 ára horft á Tejero æpa í ræðustólnum í spænska þinginu. Ég man eftir að hafa horft tvítug á Boris Yeltsin uppi á skriðdrekanum fyrir utan Dúmuna í Moskvu. Svo er hægt að velta fyrir sér þróun lýðræðis í þessum tveimur ríkjum til okkar daga.

Lýðræði er ekki auðvelt í framkvæmd og engin elsku mamma sem kemur og lagar ef allt er komið í illt. Sagan sýnir, og um það eru verulegar skráðar rannsóknir, að lok kalda stríðsins gjörbreyttu því hvernig valdarán þróuðust í heiminum. Plottarar gátu ekki lengur spilað á heimsveldin Bandaríkin og Sovétríkin um skjól, hergögn og viðskiptasamninga. Tilkoma laga bæði í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum sem bannar þróunaraðstoð og pólitísk samskipti við einræðisherra sem ræna völdum breytti þessu skákborði heimsins þannig að eftir 1991 er miklu algengara en áður að frjálsar kosningar með samkeppni – ekki rússneskar kosningar – komi í kjölfar valdarána.  Nú er ég að lýsa „realpolitik“, hvernig alþjóðasamskipti ganga fyrir sig, hvernig kaupin gerast á eyrinni.

En nú er sjálfur forseti Bandaríkjanna að berjast með vopnavaldi til að breyta niðurstöðu kosninga. Frjálsar kosningar eru ein helgustu vé stjórnarskrárbundins frjálslynds lýðræðis. Hvert erum við þá komin? Spyrjum fyrst hvert hafi verið markmið innrásar stormsveitarinnar í þinghúsið?  Svarið hlýtur að vera í fyrsta lagi frestun staðfestingar þingsins á úrslitum kjörmannaatkvæðagreiðslunnar. Í öðru lagi, að því er virðist, að spilla, farga eða jafnvel brenna kjörgögnin sjálf sem voru inni í þingsalnum og starfsmönnum þingsins tókst að koma í öruggt skjól. Í þriðja lagi að valda upplausn, óöryggi og ótta – ástandi þar sem allt getur gerst.

Tilraun til valdaráns er borgarastríð í fæðingu segja fræðin. Mun Bandaríkjamönnum takast að kæfa það í fæðingu? Nú eru þeir komnir í þá stöðu að aðrar valdablokkir heimsins vilja hafa lýðræðislegt vit fyrir þeim. Evrópusambandið hvetur til þess að 25. viðauki stjórnarskrárinnar verði notaður til að víkja Trump úr embætti. Hann á 13 daga eftir og er til alls vís. Mun hann fara í stríð til dæmis við Íran eða eru stormsveitir og átök framtíðin og verða innri hryðjuverk daglegt brauð næstu árin? Vonandi ekki. En Joe Biden og Kamillu Harris bíður ærið verkefni.