Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Þrjú af fjórum enn með einkenni hálfu ári eftir sýkingu

09.01.2021 - 01:49
epa08925660 Dominic Zhang (L), a Wuhan resident who had been infected with Covid-19, wears a protective face mask as he walks with his daughter in Wuhan, China, 31 December 2020 (issued 08 January 2021). Zhang, a software engineer, spent several months in isolation after he was diagnosed with Covid-19 when the coronavirus outbreak emerged in Wuhan last year.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
Daglegt líf flestra Wuhanbúa er óðum að færast í eðlilegt horf. Meirihluti þeirra sem veiktust alvarlega af COVID-19 glímir þó enn við eftirköst sjúkdómsins. Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrjú af hverjum fjórum sem lögð voru inn á sjúkrahús vegna alvarlegra COVID-19 veikinda í Wuhan í Kína kljást enn við í það minnsta eitt sjúkdómseinkenni, sex mánuðum eftir að þau veiktust. Þetta er ein megin niðurstaða rannsóknar kínverskra vísindamanna, sem birt var í læknaritinu Lancet á föstudag. Rannsóknin nær til hátt á annað þúsund COVID-19 sjúklinga í Wuhan og er ein fárra slíkra, enn sem komið er, þar sem rýnt er í langtímaafleiðingar sjúkdómsins.

Rannsakendur komust meðal annars að því, að þreyta og skertur vöðvastyrkur séu algengustu langtímaeinkennin, en svefntruflanir komi þar á eftir. „Þar sem COVID-19 er svo nýr sjúkdómur, þá erum við bara rétt að byrja að átta okkur á sumum langtímaáhrifum hans á heilsufar sjúklinga," segir Bin Cao, prófessor í öndunarfæralækningum og aðalhöfundur rannsóknarskýrslunnar.

Brýnt að fylgjast áfram með fólki sem veiktist

Bin segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna glöggt þörfina á áframhaldandi meðferð og aðhlynningu COVID-19 sjúklinga eftir að þeir eru útskrifaðir af sjúkrahúsi, og þá sérstaklega þeirra sem veikastir voru. Einnig sé mikilvægt að halda rannsóknum á langtímaafleiðingum áfram.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur áður sent frá sér yfirlýsingu um að hætta sé á alvarlegum langtímaafleiðingum fyrir fólk sem smitast af COVID-19, jafnvel ungt og hraust fólk sem ekki þurfti að leggjast inn á sjúkrahús.

76 prósent finna enn fyrir einkennum

Rannsóknin sem kynnt er í Lancet var gerð á 1.733 COVID-19 sjúklingum sem útskrifaðir voru af Jinyntan-sjúkrahúsinu í Wuhan frá janúar fram í maí í fyrra. Rannsakendur heimsóttu þá á tímabilinu júní til september og lögðu fyrir þá spurningar um líðan og heilsu, skoðuðu þá og tóku lífsýni til frekari rannsókna.

Meðalaldur sjúklinganna er 57 ár. 76 prósent þeirra sögðust enn finna fyrir sjúkdómseinkennum. 63 prósent sögðust kljást við þreytu og/eða veiklaða vöðva, og 26 prósent glímdu við svefnraskanir.