Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Spáir því að hjarðónæmi náist á Íslandi strax í sumar

09.01.2021 - 18:46
Um mitt sumar verður bólusetningu lokið á Íslandi. Þetta segir umboðsmaður Íslands, Svíþjóðar og Noregs í bóluefnamálum. Evrópusambandið hefur eyrnamerkt  Íslandi yfir milljón skammta af bóluefni gegn Covid-19.  Íslendingar fá hlutfallslega jafnmarga skammta og önnur Evrópuríki. 

Framleiðsla að aukast

Vonir glæðast um að það styttist í hjarðónæmi á Íslandi. Richard Bergström, efur yfirumsjón með bóluefnamálum í Svíþjóð og á sæti í samninganefnd framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um bóluefni. Hann segir að útlit sé fyrir að í vor gerist hlutirnir hratt. „Það eru vonandi að koma fimm bóluefni, núna í vor, það þýðir að um mitt sumar verður bólusetningu lokið á Íslandi, í Svíþjóð, Noregi og öllum Evrópusambandsríkjunum.“

Bergström segir að þótt það gangi hægt að fá bóluefni til landsins núna fari flæðið að aukast töluvert. Útlit sé fyrir að framleiðslugeta Pfizer tvöfaldist eða þrefaldist í mars og þá sé líka von á stórum skömmtum frá Astra Zeneca. Bergström spáir því að Evrópusambandið veiti bóluefni Astra Zeneca markaðsleyfi í lok þessa mánaðar. Í mars er von á tæplega 70 þúsund skömmtum frá fyrirtækinu til Íslands. 

Ísland fær bóluefni frá fimm fyrirtækjum

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Evrópusambandið samdi í gær við Pfizer um kaup á 300 milljónum skammta til viðbótar við þær 300 milljónir sem þegar höfðu verið tryggðar, Ísland á því líka von á tvöfalt fleiri skömmtum frá fyrirtækinu eða um 500 þúsund í heildina. fjórðungur þessara skammta á að skila sér fyrir sumarið. Þessu til viðbótar er bóluefni Moderna komið með markaðsleyfi frá Evrópusambandinu.

Bergström fullyrðir að Ísland fái hlutfallslega jafnmikið og önnur ríki Evrópusambandsins. Í heildina er búið að eyrnamerkja Íslendingum tæplega 1,2 milljónir skammta af bóluefni. Fyrir mitt sumar eiga að koma 259 þúsund skammtar af bóluefni Astra Zenece sem er með 70% virkni, búið er að tryggja Íslandi tæplega hálfa milljón skammta frá Pfizer, þar af kemur þriðjungur í vor. Þá er von á skömmtum frá Moderna, Janssen og CureVac. 

Offjárfestu vísvitandi í bóluefni

Hver þarf tvo skammta og því dugar þetta til að bólusetja alla þjóðina og gott betur. Bergström segir að Evrópusambandið hafi vísvitandi offjárfest í bóluefnaskömmtum. Í upphafi lá ekki fyrir hvaða efni myndu virka og verða samþykkt. Þá segir hann að hugsanlegt sé að einhver bóluefni veiti ekki jafn mikla vörn og því geti þurft að gefa þriðju sprautuna inni. „Við vitum síðan ekki hversu lengi vörnin endist, hún gæti verið mjög sterk í byrjun en svo eftir ár eða tvö gæti þurft viðbótarskammt til að styrkja ónæmissvarið. Þess vegna þurfum við að halda framleiðslunni vel gangandi.“ 

Ríki fá það sem þau þurfa - hitt verður selt eða gefið

Evrópusambandið hefur fjárfest í verksmiðjum, og flýtir þannig fyrir framleiðslu bóluefnis. Bergström segir að þannig hjálpi sambandið öllum heimilum. Ekki er víst að Evrópusambandið þurfi alla þá skammta sem það hefur pantað, þeim verður þá dreift til annarra, endurselt eða gefið. „Við höfum séð stór fjárframlög en það vantar sjálfa bóluefnisskammtana sjálfa. Við erum byrjuð að huga að því hvernig megi endurráðstafa því efni sem nýtist ekki í Evrópu, áður en það er sent til landanna. Hugmyndin er ekki að senda allt bóluefnið til ríkjanna og hirða afgangana aftur, við sendum aðeins þá skammta sem verða nýttir og restin verður seld eða gefin áfram.“