Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Skoða dreifingu á gögnum úr viðkvæmri rannsókn

09.01.2021 - 14:17
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Héraðssaksóknari er að skoða dreifingu á gögnum úr viðkvæmri rannsókn sem embættið var með fyrir fimm árum. Gögnin hafa meðal annars verið send til fréttastofu og þeim dreift á bland.is. Þau tengjast máli lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var sakaður um spillingu.

Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, staðfestir í samtali við fréttastofu að málið sé til skoðunar hjá embættinu. Verið sé að meta hvort grípa þurfi til einhverra aðgerða og hvort þarna hafi verið framið lögbrot.  

Gögnin tengjast máli lögreglufulltrúa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var sakaður um spillingu. Niðurstaða úr rannsókn héraðssaksóknara var mjög afdráttarlaus, þessar ásakanir ættu ekki við rök styðjast og ekkert saknæmt hefði komið í ljós. Málið mætti meðal annars rekja til ágreinings innan fíkniefnadeildarinnar.

Rannsóknin stóð í tæpt hálft ár og  teknar voru skýrslur af á þriðja tug lögreglumanna, meðal annars fyrrverandi yfirmönnum fíkniefnadeildar lögreglunnar. Í gögnunum sem hafa verið í dreifingu má einmitt finna upplýsingar úr þeim skýrslutökum og engar persónugreinanlegar upplýsingar hafa verið afmáðar.

Málið allt hafði sínar afleiðingar. Lögreglufulltrúinn fór í mál við íslenska ríkið vegna ákvörðunar þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og núverandi ríkislögreglustjóra að víkja honum tímabundið frá störfum. Var ríkinu gert að greiða honum 1,5 milljónir króna í bætur með dómi Hæstaréttar fyrir þremur árum.

Málið leiddi einnig til þess að þáverandi yfirmaður fíkniefnadeildar var færður til í starfi. Hún fór í málið við íslenska ríkið vegna tilfærslunnar og var ríkið með dómi Hæstaréttar gert að greiða henni 1,5 milljónir króna í bætur.