Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Samgöngur við Bandaríkin tryggðar með samningi

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhann Bjarni Kolbeinsson - RÚV
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur gert nýjan samning við Icelandair um að tryggja lágmarksflug til Bandaríkjanna til og með 31. mars. Markmiðið er að tryggja flugsamgöngur til og frá landinu og í samningnum er gert ráð fyrir að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston á tímabilinu.

Í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu segir að auglýst hafi verið eftir tilboðum í flugferðirnar á evrópska útboðsvefnum TED (Tenders Electronic Daily) áður en gengið var til samninga og að Icelandair hafi verið eina flugfélagið sem gerði tilboð. Allar tekjur Icelandair af flugi til Boston munu lækka greiðslur vegna samningsins og gert er ráð fyrir að hægt verði að framlengja samninginn ef ástæða þykir til.

Áþekkir samningar hafa verið gerðir við félagið síðan kórónuveirufaraldurinn fór að hafa áhrif á flugsamgöngur til og frá landinu og er þetta í fjórða skiptið sem samningur af þessu tagi er gerður.