Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ólíklegt að Demókrötum takist að bola Trump úr embætti

09.01.2021 - 19:53
Mynd: RUV/Geir Ólafsson / RUV
Staða Bandaríkjanna sem eitt fremsta lýðræðisríki heims hefur veikst mjög vegna áhlaupsins á þinghúsið, segir James Thurber, stjórnmálafræðiprófessor í Washington. Afar ólíklegt sé að Demókrötum takist að bola Trump úr embætti.

Demókratar á bandaríkjaþingi segjast ætla eftir helgi að ákæra Donald Trump bandaríkjaforseta fyrir embættisglöp, í annað sinn á rúmu ári. Þrýst er á afsögn forsetans og búið að loka fyrir hans helstu tengingu við stuðningsmenn sína. Stjórnendur Twitter lokuðu í gær aðgangi Trumps á samfélagsmiðlinum og segja það vegna hættu á því að hann egni stuðningsmenn sína til frekara ofbeldis.

Repúblíkanar gætu kosið að sitja hjá

Demókratar segja þetta löngu tímabært en Repúblíkanar furða sig á því að nú eigi að þagga niður í forseta, sem rúmlega 74 milljónir Bandaríkjamanna studdu í kosningunum. Það er mikil spenna í Washington og næstu tíu dagar gætu ráðið því hvort það takist að sameina þjóðina, eða tvístra enn frekar. Demókratar eru að undirbúa ákæru en þeir þurfa að fá hana samþykkta í báðum deildum þingsins. Valdahlutföllin eru nánast jöfn í öldungadeildinni en þar þarf atkvæði tæplega sjötíu prósent þeirra þingmanna sem eru viðstaddir til að forsetinn verði sakfelldur. Thurber segir að líklega sé mjög tæpur meirihluti fyrir því að sakfella forsetann í öldungadeildinni, en einhverjir repúblíkanar gætu nýtt sér þann möguleika að sitja hjá, eða vera fjarverandi í atkvæðagreiðslunni, og þannig aukið líkur á því að Trump verði sakfelldur. Ef svo færi mætti ekki bjóða sig fram að nýju í næstu kosningum, 2024.

epaselect epa08923424 Supporters of US President Donald J. Trump in the Capitol Rotunda after breaching Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters entered the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA

Óttast hörð mótmæli fram að innsetningarathöfninni

Thurber segist hafa fylgst með áhlaupinu á þinghúsið með hryllingi og það hafi áhrif á ásýnd Bandaríkjanna sem eins fremsta lýðræðisríkis heims. Hann óttast, eins og fleiri, hörð mótmæli í höfuðborginni fram að innsetningarathöfn Joe Bidens, en boðað hefur verið til mótmæla næsta sunnudag, 17 janúar, og líka þegar Biden tekur formlega við forsetaembættinu, þann tuttugasta. Hann eins og fleiri undrast að lögregla hafi ekki verið með meiri viðbúnað. Litlu hafi munað að mótmælendur kæmust í fulltrúadeild þingsins líka, en þeir gerðu sig heimakomna í öldungadeildinni. Thurber segir að sumir þeirra hafi verið vopnaðir og því hefði getað farið mun verr, en fimm létu lífið í átökunum, þar af einn lögreglumaður. 

Mynd: RUV / RUV
James Thurber er prófessor við American University í Washington.