Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Nennir ekki endalaust að syngja fyrir sjálfa sig

Mynd: RÚV / RÚV

Nennir ekki endalaust að syngja fyrir sjálfa sig

09.01.2021 - 13:00

Höfundar

Sigríður Thorlacius söngkona er bæði sjóuð í að koma fram fyrir fjölda manns á stórtónleikum og syngja á smærri samkomum í miklu návígi við fólk. Hún kallar sig stundum alþýðusöngkonuna og nýtur sín sérstaklega þegar hún syngur í nánu umhverfi og sér hvert andlit sem hlustar.

Sigríður komst fyrst á radarinn hjá íslenskum hlustendum þegar hún gekk til liðs við hljómsveitina Hjaltalín árið 2006. Í dag syngur hún einnig með hljómsveitinn GÓSS og er gjarnan fengin til að troða upp á smærri mannamótum, í brúðkaupum og jarðarförum. Hún kallar sig stundum alþýðusöngkonuna og þykir sá titill lýsa sér vel. Sigríður er gestur Matthíasar Más Magnússonar í Tónatali sem var tekið upp á Röntgen og er á dagskrá RÚV í kvöld.

Vegna sóttvarnaráðstafana og samkomutakmarkana var, eins og þjóð veit, flestum tónleikum síðasta árs frestað eða þeir blásnir af. Það leiddi til þess að margir listamenn misstu stóran hluta af tekjum sínum. Þessi tími var erfiður fyrir Sigríði og þá helst fyrir þær sakir að hún saknaði þess að koma fram. „Mér fannt bara rosalega leiðinlegt að fá ekki að syngja fyrir fólk. Finna ekki þessi organísku orkuskipti þegar þú gefur eitthvað og færð eitthvað til baka,“ segir hún. „Alþýðusöngkonan er þakklát fyrir að fá að syngja fyrir fólk og hún þarf það. Hún nennir ekki endalaust að syngja fyrir sjálfa sig.“

Það er erfitt að velja á milli þess að syngja í brúðkaupum, á litlum mannamótum, á tónleikum með Hjaltalín eða að vera á ferð um landið með GÓSS. „Ég held það sé mín gæfa að eiga alla þessa hatta,“ segir Sigríður. „Ég á ekki beint minn uppáhaldshatt en mér finnst rosalega gaman að syngja í litlu samhengi eins og í heimahúsum eða hér, þar sem ég er mjög nálægt fólki.“

Það er ekki alltaf auðvelt að koma fram í slíku návígi en við þær aðstæður nýtur Sigríður sín afar vel. „Ef þú ert á risastóru sviði og þú sérð ekki alveg út í salinn, það er bara önnur upplifun. En þetta finnst alþýðusöngkonunni rosalega yndislegt.“

Tónatal er á dagskrá RÚV í kvöld klukkan 20:45. Í þessum öðrum þætti spjallar alþýðusöngkonan Sigríður Thorlacius við Matthías um söngferilinn sem hún og Guðmundur Óskar vefja saman með nokkrum af helstu lögum hennar í bland við áhrifavalda Sigríðar.

Tengdar fréttir

Tónlist

Nánast sparkað úr partíi fyrir að kunna ekki Blindsker

Tónlist

„Skuldir, þunglyndi, alkóhólismi – Danmörk“