Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hefðu getað séð fyrir krefjandi aðstæður í Svefneyjum

09.01.2021 - 17:04
Mynd með færslu
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins Mynd: Landhelgisgæslan
Rannsóknarnefnd samgönguslysa telur að aðstæður í Svefneyjum, þegar flugvél hafnaði í fjöruborðinu eftir flugtak í ágúst fyrir tveimur árum, hafi verið mjög krefjandi vegna veðurs. Það hefði þó verið hægt að sjá það fyrir ef ítarlegri veðurfarsupplýsinga hefði verið aflað.

Tveir voru um borð í vélinni; flugmaður og farþegi. Þá sakaði ekki en flugvélin sjálf skemmdist töluvert.  Flugvélin hafnaði á hvolfi í fjörunni um 80 metrum frá flugbrautarenda að suðvestanverðu.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram flugmaðurinn hafi haft töluverða reynslu af flugtökum stélhjólsflugvéla við hliðarvindsaðstæður „en yfirleitt hefur hann þá haft breiðari flugbraut.“ 

Hann taldi að sviptivindur hefði komið undir vinstri væng vélarinnar þannig að hann lyftist og flugvélin snerist til vinstri.  Hann hafi ekki verið kominn með fulla stjórn á hliðarstýri og flugvélin leitað til vinstri þannig að vinstra aðalhjól fór út af flugbrautinni.

Flugvélin hafi síðan haldið áfram út af flugbrautinni með fyrrgreindum afleiðingum.

Rannsóknarnefndin telur að flugvélin hafi leitað út af flugbrautinni vegna vindáhrifa. Flugbrautin hafi verið það mjó á kafla að hún hafi ekki gefið mikið svigrúm fyrir flugtak í hliðarvind. 

Nefndin segir að veður hafi verið þannig að krefjandi aðstæður voru til flugtaks í Svefneyjum á þessum tíma. „Það hefði mátt sjá fyrir ef ítarlegri veðurupplýsinga hefði verið aflað fyrir flug þangað.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV