Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gerðu sér ekki fulla grein fyrir áhættunni

09.01.2021 - 12:46
Álfsnes · Bruni · Eldsvoði · Innlent · Sorpa
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Framkvæmdastjóri Sorpu segir að eldsneytistankar sem geymdir voru í skemmu upp við ruslahaug á Álfsnesi verði fluttir annað eftir helgi. Við lá að illa færi í gær þegar mikill eldur kviknaði í haugnum. Í haugnum var sláturúrgangur sem þakinn hafði verið með garðaúrgangi til að minnka ólykt. Eldurinn teygði sig líka í dekk og netadræsur með tilheyrandi mengun.

 

 

Skemman hýsti þróunarverkefni Sorpu og fyrirtækisins Ýmis technologies, þar var í sumar unnið að því að vinna fitu úr sláturúrgangi til vinnslu á lífdísil. Til stendur að færa starfsemina nær Gas- og jarðgerðarstöð Sorpu en enn voru í skemmunni um sjö tonn af eldsneyti þegar eldurinn kviknaði í gær. Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu, segir í raun ekki eðlilegt að hafa slíka starfsemi svo nálægt ruslahaug þar sem er viðvarandi sjálfsíkveikjuhætta, í ljósi þess hafi starfsmenn Sorpu verið búnir að gera ráðstafanir, grafa rás milli skemmunnar og haugsins. Þessar ráðstafanir hjálpuðu að sögn slökkviliðsins til í gær, en dugðu ekki til, logarnir voru farnir að sleikja skemmuna. Var búið að gefa leyfi fyrir því að hafa þessa starfsemi þarna ofan í haugnum? „Sko þessi starfsemi er búin að vera þarna í langan tíma og þessar byggingar eru tengdar þessari starfsemi sem var leyfi fyrir, svo bara breytast aðstæður með tíma.“

Jón Viggó segir að það hafi verið ákveðin sprengihætta og slökkviliðið hafi vitað af því. Starfsmenn Sorpu hafi þó ekki fyllilega gert sér grein fyrir áhættunni áður en það kviknaði í haugnum. „Áhættumat sem var gert á sínum tíma gerði ekki ráð fyrir því að það myndi kvikna í þessu lífræna efni og það verður svo sem engin hitamyndun þar. Við förum reglulega yfir allt með hitamyndavélum og það var ekki að sjá að það væri mikil hitamyndun þarna en það virðist hafa myndast einhverjar aðstæður í yfirlagsefninu, það hafi kviknað í því og farið í dekkjakurl sem myndaði mikinn eld og reyk.“

Hann gerir ráð fyrir því að metanól- og lífdíselskútarnir verði fluttir annað fljótlega eftir helgi.
 

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV