Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Farþegavélar saknað skömmu eftir flugtak frá Jakarta

09.01.2021 - 11:40
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Flugturn missti samband við vélina skömmu eftir flugtak frá flugvelli í Jakarta í Indónesíu. Vélin var af gerðinni Boeing 737-500. Ekki er víst hversu margir voru um borð en vélin tekur um 130 farþega. Talið er að hún hafi skollið í Javahaf, en myndir af sjómönnum á svæðinu með það sem talið er vera brak úr vélinni hafa verið birtar á samfélagsmiðlum. Hún var á leið til borgarinnar Pontianak á eynni Borneó, norður af Jakarta.

Vélin á myndinni hér að ofan er í eigu All Nippon Airways, stærsta flugfélags Japans. Þessi gerð flugvéla tekur um 130 farþega en þær eru töluvert minni en 737 max vélarnar. Vél Lion Air þeirrar gerðar hrapaði skammt frá Jakarta í október 2018 og vél sömu gerðar í Eþíópíu nokkrum mánuðum síðar. Tilkynnt var í gær að bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefði samþykkt að greiða ríflega 2,5 milljarða bandaríkjadala í bætur og sektir fyrir að leyna upplýsingum um ástand vélanna. Allar Boeing MAX-vélar voru kyrrsettar eftir slysin sem kostuðu 346 mannslíf.

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV