Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Demókratar ætla að birta ákæruna á mánudag

09.01.2021 - 11:16
epa08925405 Trump supporters salute at a makeshift monument at the West Front of the US Capitol, for Ashli Babbitt, who was shot and died the day before during a mob riot of Trump supporters at the US Capitol in Washington, DC, USA, 07 January 2021. A mob of Trump supporters rioted at the US Capitol, storming inside the building, as Congress began counting the electoral college votes. Despite efforts by the mob to stop it, Congress certified Joe Biden's presidential election victory over US President Donald J. Trump.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Demókratar í fulltrúadeild bandaríkjaþings ætla að ákæra Donald Trump bandaríkjaforseta fyrir embættisbrot á mánudaginn. Trump sakar stjórnendur Twitter um þöggun, eftir að aðgangi hans á samfélagsmiðlinum var lokað.

Trump brást við lokuninni með því að gagnrýna fyrirtækið á opinberum Twitter-aðgangi forsetaembættisins. Þeim  færslum hefur nú einnig verið eytt. Stjórnendur Twitter segja þetta gert því talin hafi verið hætta á að Trump notaði miðilinn til að hvetja til frekari ofbeldisverka. Þar er vísað til þess þegar stuðningsmenn Trumps réðust inn í þinghúsið í Washington á miðvikudagskvöld. Flestir samfélagsmiðlanna vestra hafa lokað á forsetann og hann er sagður íhuga að stofna sinn eigin. En það er sótt að honum úr öllum áttum, og Demókratar ætla að freista þess að koma honum frá völdum. Það er þrennt sem kemur til greina í þeirra huga, að Trump segi af sér, hann verði ákærður fyrir embættisbrot eða 25 viðauki stjórnarskrárinnar verði virkjaður, og Mike Pence varaforseti taki við til 20 janúar, þegar Joe Biden tekur við forsetaembættinu. 

Það er fátt sem bendir til þess að Trump sé að íhuga afsögn. Demókratar eru að undirbúa ákæru um embættisbrot og Ted Lieu, þingmaður Demókrata frá Kaliforníu, segir að hún verði birt í þinginu strax eftir helgi.

Hann segir að Trump hafi hvatt stuðningsmenn sína til að ráðast inn í þinghúsið. Þetta hafi hann gert við nokkur tilefni opinberlega og því þurfi ekki tímafreka rannsóknarvinnu, heldur sé hægt að ljúka henni á nokkrum dögum. Áhlaupið hafi verið árás á lýðræðið og þingið verði að bregðast við. 

Ákæra um embættisbrot gæti verið samþykkt í fulltrúadeildinni en það þarf tvo þriðju öldungadeildarinnar til að sakfella Trump. Ef svo færi gæti hann líklega ekki boðið sig fram í næstu forsetakosningum. Lang líklegast er að öldungadeildin sýkni forsetann öðru sinni, en Trump yrði fyrsti forsetinn sem er ákærður tvisvar fyrir embættisbrot. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu segir að ákæran sé pólitískur leikur Demókrata, og muni aðeins ýta undir klofning í bandarísku samfélagi.