Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vísa frá kæru vegna óásættanlegs holdafars hunds

Mynd með færslu
 Mynd: Eddi
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur vísað frá kæru hundseiganda sem telur að eftirlit Matvælastofnunar með hundinum hafi verið óheimilt.

Matvælastofnun hafði eftirlit með kæranda eftir að hafa borist ábending um horaðan hund í hans eigu. Dýralæknir og eftirlitsmaður mátu holdafar hundsins óásættanlegt og þegar skoðun fór fram hafði hundurinn hvorki verið bólusettur né farið í ormahreinsun. 

Stofnunin gaf manninum þrjátíu daga frest til að fara með hundinn til dýralæknis og bæta holdafar hans og krafðist síðar staðfestingar á því að læknisskoðun hefði verið gerð. Þá fór stofnunin fram á að hafa aftur eftirlit með hundinum. 

Telur eftirlit án hans vitneskju óheimilt

Í úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að kröfur eiganda hundsins séu óljósar, en að draga megi þá ályktun út frá andmælum hans að hann óski eftir afturköllun ákvörðunar Matvælastofnunar. Hann byggir kæruna á því að eftirlit Matvælastofnunar hafi verið óheimilt án hans vitneskju og samþykkis. Jafnframt hafi dýralæknir og dýraeftirlitsmaður verið vanhæfir til að meta hundinn vegna vanþekkingar þeirra á hundategundinni. Þá gagnrýnir hann einnig að skýrsla hafi ekki verið gerð í hans viðurvist.

Umráðamenn dýra þurfi að þola athugasemdir

Í svari Matvælastofnunar segir að í eftirlitsstörfum vegna dýravelferðar á vegum stofnunarinnar séu dýralæknar og eftirlitsmenn sem flestir hafi áralanga reynslu af umhirðu og læknisstörfum vegna dýra: „Umráðamönnum dýra beri lögum samkvæmt að fara vel með dýr í sinni umsjá og þeir verði að þola athugasemdir og ábendingar eftirlitsaðila þegar umhirðu eða aðbúnaði virðist ábótavant. Eftirlitsfólk Matvælastofnunnar vinni sín störf af heilindum með aðbúnað og velferð dýra að leiðarljósi.“

Ráðuneytið hefur vísað kærunni frá, enda barst hún þegar kærufrestur var liðinn. Þó segir einnig í úrskurðinum að ráðuneytið fái ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.