Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Verður að sæta ábyrgð

Mynd: EPA / EPA
Sigríður Rut Júlíusdóttir lögmaður, sem hefur búið í Bandaríkjunum, segir að Donald Trump, forseti Bandaríkjanna sé ekki í jafnvægi og að hann geti ekki setið næstu tvær vikur sem forseti. Hann verði að sæta ábyrgð fyrir það sem hann hafi gert. Jón Óskar Sólnes, hagfræðingur, sem býr í Washington, hefur trú á því að forsetinn hafi misst áhugann á starfinu. Hann eigi eftir að láta lítið fyrir sér fara næstu tvær vikunnar og verði aðallega í golfi.

Menn að átta sig

Rætt var við Sigríði Rut og Jón Óskar í Speglinum í gær. Jón Óskar segir að Trump hafi vissulega hvatt stuðningsmenn sína til að fara að þinghúsinu. Hins hafi menn átt erfitt með að trúa því að þetta myndi ganga svona langt. Fréttamönnum, sem voru að lýsa því sem gerðist, hafi fundist að þeir væru að flytja fréttir frá suðuramerísku ríki eða þriðja heims ríkjum.

„Menn eru enn þá að átta sig á því að þetta hafi gerst í Washington, í höfuðborg Bandaríkjanna. Menn eru mikið að tala um að þetta sé ljósið í heiminum og horfi hingað til lýðræðis og að þetta hafi orðið bandaríska kerfinu til mikillar minnkunar. En það er ekki hægt að segja beinlínlínis að þetta hafi komið óvart eftir ræðu Trumps því hann var mjög herskár í henni,“ segir Jón Óskar.

Sigríður Rut segir að það hafi ekki verið í fyrsta sinn sem Trump hvatti til áhlaups í ræðunni sem hann flutti í fyrradag. Hann hafi byrjaði á Twitter að hvetja stuðningsmenn sína að hópast saman þennan dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Sigríður Rut Júlíusdóttir

Trump ekki í janvægi

En er raunhæft að koma Trump frá völdum? Sigríður segir að það séu tvær leiðir til þess. Annars vegar 25. greinin í viðauka stjórnarskrárinnar og að þingi ákæri hann. Seinni leiðin taki kannski lengri tíma. 25. viðaukann þurfi varaforsetinn að virkja í samráði við þingið og ráðherranna í ríkisstjórn Trumps.

„Ég er þeirrar skoðunar að það verði að gera eitthvað. Maðurinn getur ekki bara setið þarna án þess að sæta nokkurri ábyrgð fyrir það sem hann hefur gert og staðið fyrir hérna síðastliðinn sólarhring. Ég hef ekki miklar áhyggjur af því að hann fari að beita kjarnorkuvopnum eða hernum. Milley hershöfðingi hefur ítrekað að hann muni ekki fylgja ólögmætum skipunum. Sú hætta er að mínu viti ekki endilega fyrir hendi. Hann verður að sæta einhverri ábyrgð. Það er alveg klárt,“ segir Sigríður Rut. Trump sé ekki í jafnvægi og maður sem er ekki í jafnvægi geti ekki setið í þessari ábyrgðarstöðu næstu tvær vikunnar. 

SAMSUNG DIGITAL CAMERA
Jón Óskar Sólnes

Hefur misst áhugann

Jón Óskar segir að Trump láti svona vegna þess að hann trúi því að svindli hafi verið beitt í forsetakosningum og þess vegna hafi hann tapað.

„Ég hef meiri trú á því að hann missi áhugann. Þetta hafa verið stóri hvellurinn í gær [fyrradag] og að hann láti ekki mikið fyrir sér fara næstu tvær vikur. Hann verði bara í golfinu eða einhverju öðru,“ segir Jón Óskar. Fréttamenn sem þekkja til í Hvíta húsinu segi að hann mæti illa á fundi og að hann sé illa upplýstur. Hann sé áhugalaus og í litlum samskiptum við sitt lykilstarfsfólk. „Það finnst mér benda til þess að hann sé orðinn þreyttur á þessu.“

Hlusta má á viðtalið við Sigríði Rut og Jón Óskar í spilaranum hér að ofan.
 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV