Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump fordæmir ofbeldið harðlega

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Donald Trump Bandaríkjaforseti fordæmir harðlega og afdráttarlaust það ofbeldi sem stuðningsmenn hans beittu með því að ryðjast inn í þinghúsbygginguna í gær. Kayleigh McEnany, talskona forsetans greindi fréttamönnum frá þessu í dag.

Trump sjálfur birti jafnframt ávarp á Twitter þar sem hann sagðist, eins og aðrir Bandaríkjamenn hneykslaður á ofbeldinu í gær. Nú einbeitti hann sér að því að tryggja friðsamleg valdaskipti 20. janúar.

Kayleigh McEnany viðhafði nánast sömu orð og forsetinn á blaðamannafundinum í Hvíta húsinu.

„Ofbeldið sem beitt var í gær er siðlaust gagnvart bandarískum siðum og venjum, ruddalegt og ámælisvert á alla lund," sagði McEnany og bætti við að lögbrjótar skyldu hver og einn saksóttur fyrir brot sín. Hið sama sagði Trump í ávarpi sínu.

Jafnframt sagði hún að atburðir gærdagsins ættu ekkert skylt við þau friðsamlegu mótmæli sem gert er ráð fyrir og hvatt til í fyrsta viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar.

Hún þakkaði löggæslufólki fyrir vel unnin störf, sagði það sannar amerískar hetjur. Hún harmaði örlög þeirra sem létust eða slösuðust. Að lokum sagði McEnany nú tímabært að bandaríska þjóðin sameinaðist á ný og hafna öllu ofbeldi.

Donald Trump sagði í ávarpi sínu á Twitter mikilvægt að endurreisa efnahaginn, það hefði verið mesti heiður ævi hans að fá að starfa sem forseti Bandaríkjanna. Hann sagðist jafnframt fullvissa vonsvikna stuðningsmenn sína um að vegferð þeirra væri rétt að hefjast.