Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Telja þjónustu ekki skerta með hækkun skimunaraldurs

08.01.2021 - 19:41
Mynd: RÚV / RÚV
Lágmarksaldur kvenna sem geta farið í brjóstakrabbameinsskimun hefur hækkað úr 40 árum í 50, og skimun við leghálskrabba er gerð á fimm ára fresti í stað þriggja, eftir að opinberar stofnanir tóku við þeim af Krabbameinsfélaginu. Formaður skimunarráðs segir að þjónustan hafi þó ekki verið skert.

Um áramótin færðust skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameini frá Krabbameinsfélaginu til heilsugæslunnar, Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri, og hefur það ýmsar breytingar í för með sér.

„Það er til dæmis verið að gera leghálsskimunina nánast gjaldfrjálsa sem er risastórt skref og við höfum talað mikið fyrir enda vitum við að það getur skipt sköpum fyrir allt að 25% af þeim konum sem taka þátt. Það er líka verið að hækka aldursviðmiðið í brjóstaskimunum upp í 74 ár. Það er mjög gott,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins.

Aftur á móti verður konum ekki boðið upp á brjóstaskimanir fyrr en þær verða 50 ára í stað 40 ára áður, og er sú ákvörðun byggð á ráðleggingum Evrópusambandsins. Árlega hafa greinst að meðaltali um tíu brjóstakrabbamein hjá konum á fimmtugsaldri í skimun.

„Það er auðvitað neikvætt fyrir þær konur. Það er alveg augljóst. En þegar skimunin er skipulögð í heild þá eru alls konar þættir sem þarf að taka afstöðu til,“ segir Halla og bætir við að meiri skimun sé ekki endilega betri. Thor Aspelund, formaður skimunarráðs, tekur í sama streng.

„Það eru kostir og gallar við skimanir. Það eru falskt jákvæðar niðurstöður, falskt neikvæðar og þetta aldursbil - fjörutíu til fimmtíu - það er viðkvæmt og ekkert ótvírætt um árangur þar,“ segir Thor.

Skimunarráðið telur að skaðsemi hafi verið meiri en nytsemi í skimun þessa aldurshóps og nefnir í því samhengi ofgreiningar, ofmeðhöndlun og falskt öryggi. Halla telur að kynna hefði mátt rökstuðning fyrir breytingunum betur og bendir á að í evrópsku leiðbeiningunum sé mælt með skimun 45 til 49 ára kvenna.

„Ég get alveg séð kannski að tillögur Evrópusambandsins séu einhvers konar málamiðlun, að fara þarna niður í 45. Okkur finnst rökin ekki alveg nógu sterk og við höfum horft líka til Norðurlandanna og byrjað við fimmtíu,“ segir Thor.

Einnig eru breytingar á fyrirkomulagi leghálsskimunar. Konur á aldrinum 30 til 64 ára fara nú á fimm ára fresti í stað þriggja.

„Það er verið að breyta fyrirkomulaginu, snúa við og setja veirumælingar sem fyrstu rannsókn og frumurannsókn í framhaldi af því. Með þessari aðferð er óhætt að lengja tímabilið á milli skimana en þetta er einmitt svona atriði þar sem skiptir máli að upplýsa fólk, að segja því hvaða breytingar er verið að gera og hvers vegna,“ segir Halla.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV