Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Seldist upp á klukkutíma og kerfið hrundi vegna álags

Mynd með færslu
 Mynd: Laugavegur Ultra - Facebook

Seldist upp á klukkutíma og kerfið hrundi vegna álags

08.01.2021 - 14:32
Mikill áhugi var á þátttöku í Laugavegshlaupið eða Laugavegur Ultra Marathon en fullbókað var í hlaupið á um það bil klukkutíma í hádeginu. Fjölmargir reyndu aftur og aftur að festa kaup á miða en þurftu frá að hverfa. Um tíma hrundi kerfið undan álagi og sölusíða Laugavegshlaupsins lá niðri.

Utanvegahlaup hafa notið sífellt meiri vinsælda hér á landi en á síðasta ári luku 527 keppni í Laugavegshlaupinu en ætla má að svipaður fjöldi hafi náð að skrá sig nú.

Laugavegur Ultra Marathon er árlegt utanvegahlaup þar sem keppendur hlaupa 55 kílómetra frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk en í ár fer hlaupið fram 17. júlí. 

Óánægja með sölukerfið

Fjölmargir svekktir hlaupagarpar tjá sig í dag á Facebook-síðu hlaupsins. Margir segjast hafa æft nær allt árið fyrir hlaupið en þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafi ekki tekist að komast í gegnum sölukerfi viðburðarins. Nokkrir eru ósáttir við að skipuleggjendur hafi hvatt eindregið til að bregðast fljótt við á slaginu 12:00 þegar sala hófst en að síðan hafi svo ekki ráðið við álagið. 

Á síðunni kemur fram að það hafi selst upp á þremur vikum í hlaupið árið 2018, á þremur dögum árið 2019 og í fyrra hafi svo selst upp á þremur klukkustundum. 

Laugavegshlaupið er ekki eina vinsæla utanvegahlaupið í ár en hátt í þúsund manns hafa skráð sig í Hengilshlaupið þar sem keppendur hlaupa allt að 160 kílómetra vegalengd.