Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ritstjóri Wall Street Journal hvetur Trump til afsagnar

Mynd með færslu
 Mynd: Flickr
Ritstjóri The Wall Street Journal hvetur Donald Trump Bandaríkjaforseta til að segja af sér, það væri best fyrir hann og alla aðra.

Þessi orð eru látin falla í nýrri ritstjórnargrein þessa íhaldsama blaðs sem er þungort í garð forsetans vegna áhlaups stuðningsmanna hans á þinghúsið í Washington.

„Vilji Trump komast hjá ákæru fyrir embættisglöp væri honum hollast að láta sjálfviljugur af störfum,“ segir í greininni sem ber fyrirsögnina „Síðustu dagar Donalds Trump“.

Forsetinn hefur iðulega legið undir ámæli á ritstjórnarsíðum blaðsins, oft mjög þungu. The Wall Street Journal er hluti af fjölmiðlaveldi Ruperts Murdochs og Paul A. Gigot, ritstjóri þess, fullyrti í aðdraganda forsetakosninganna að Trump ætti ekki möguleika á sigri.

Hinn ástralski Murdoch var löngum mjög hliðhollur forsetanum en undanfarna mánuði virðist hafa fjarað undan stuðningi hans.