Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Reynir að takmarka rétt Trump til beitingar kjarnavopna

08.01.2021 - 18:15
Speaker of the House Nancy Pelosi, D-Calif., speaks to the media at a news conference on Capitol Hill in Washington, Thursday, May 2, 2019. AP Photo/J. Scott Applewhite)
Nancy Peloci, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Mynd: AP
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings Nancy Pelosi, á í viðræðum við hæstráðendur í Bandaríkjaher um að takmarka möguleika Donalds Trump, fráfarandi forseta, á að fyrirskipa beitingu kjarnorkuvopna. Demókratar leita allra leiða til að koma forsetanum sem fyrst frá völdum. 

Pelosi greindi frá því í dag að hún hefði rætt við æðstu yfirmenn Bandaríkjahers um leiðir til að tryggja að Donald Trump, fráfarandi forseti, hefði ekki réttindi til að fyrirskipa kjarnorkuvopnaárás á þeim tólf dögum sem hann á eftir í embætti. Demókratar telja forsetann ekki í jafnvægi og vilja því grípa til þessara ráðstafana. 

Trump hefur sætt gagnrýni eftir að æstur múgur réðst inn í Bandaríkjaþing á miðvikudag og kalla leiðtogar Demókrata eftir því að hann verði settur af. Fimm eru látnir eftir óeirðirnar.

Í bréfi Pelosi til þingmanna Demókrata kveðst hún reiðubúin að hefja kæruferli á hendur forsetanum ef varaforsetinn, Mike Pence, samþykkir ekki að vísa honum frá samkvæmt 25. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar. Litlar líkur eru þó taldar á að varaforsetinn samþykki slíkt.