
Mótvægisaðgerðir ríkisins vegna COVID um 200 milljarðar
Þetta kemur fram í skýrslu starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðherra um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Af þessum 200 milljörðum eru 56 milljarðar vegna aukins atvinnuleysis og 24 milljarðar vegna hlutabóta. Þá er kostnaður vegna lengingar á tekjutengdu tímabili atvinnuleysisbóta áætlaður 2,1 milljarður.
Ýmsar sértækar aðgerðir ríkisins vegna hópa í viðkvæmri stöðu nema rúmlega tveimur og hálfum milljarði. Þar er stuðningur við börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu stærsti liðurinn, 675 milljónir og sá næst stærsti er geðrækt og andlegt heilbrigði, 580 milljónir.
Beinn stuðningur ríkisins við sveitarfélög og byggðalög nemur samtals um 2,7 milljörðum. Viðbótarframlag vegna aukningar í fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna nemur 720 milljónum og stutt er við málefni fatlaðs fólks með 670 milljóna króna viðbótarframlagi. Þau sveitarfélög, sem hafa orðið fyrir mestu tekjufalli vegna fækkunar ferðamanna fengu hálfs milljarðs króna framlag vegna þess og Suðurnes fengu 250 milljóna sértækan stuðning til að fylgja eftir aðgerðaáætlun um málefni svæðisins.
Þetta er önnur skýrsla starfshópsins um eftirfylgni efnahagsaðgerða vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hópurinn skilaði fyrstu skýrslu sinni í nóvember síðastliðinn og þar var fjallað um nýtingu heimila og fyrirtækja á úrræðum vegna COVID-19.