
Mike Pence andvígur því að víkja Trump úr embætti
Varaforsetinn sjálfur hefur ekki tjáð sig opinberlega um málið en The New York Times hefur þessa andstöðu hans eftir nánum samstarfsmanni. Stjórnarskrárákvæðinu hefur aldrei verið beitt með þessum hætti sem gerði ákvörðun þess efnis afar sögulega.
Hávært ákall um brottvikningu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta tók að heyrast eftir að stuðningsfólk hans ruddist inn í þinghúsbygginguna á Capitol-hæð í Washington í gær. Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar þingsins, sagði í dag neyðarástand ríkja í landinu og að Trump bæri ábyrgð á áhlaupinu á þinghúsið.
Heimildamaður The New York Times segir viðhorf varaforsetans stutt af nokkrum ráðherrum ríkisstjórnarinnar en stuðning stjórnar þarf til að unnt sé að víkja forseta úr embætti.
Ráðherrarnir eru sagðir álíta að brottvikning auki frekar á þá upplausn sem nú ríkir í Washington en að draga úr henni. Demókratar í fulltrúadeildinni segjast tilbúnir að ákæra Trump fyrir embættisglöp verði honum ekki vikið úr stóli forseta.