Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íslenska óperan sýknuð í máli Þóru Einarsdóttur

08.01.2021 - 15:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Íslensku óperuna í máli sem Þóra Einarsdóttir höfðaði gegn óperunni vegna vangoldinna launa. Málskostnaður var fellur niður.

Þóra vildi ekki tjá sig efnislega um niðurstöðuna að svo stöddu í samtali við fréttastofu, en sagði að það væri gott að vera komin með niðurstöðu. Hún og lögmaður hennar eigi eftir fara yfir rökstuðninginn. Hún segir að niðurstaðan veki margar spuriningar. Það að málskostnaður hafi verið felldur niður sé til marks um að hún hafi haft sitthvað til síns máls. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort að dómnum verði áfrýjað til Landsréttar.

Deila um það hvort kjarasamningur gildi

Íslenska óperan frumsýndi Brúðkaup Fígarós í september í hittifyrra. Nokkrir einsöngvaranna í sýningunni kvörtuðu undan óhóflegu vinnuálagi og leituðu til stéttarfélags, Félags íslenskra hljómlistarmanna, FÍH. Gunnar Hrafnsson, formaður félagsins, hefur sagt að samanlagðar launakröfur þeirra hafi verið um fjórar milljónir króna.

Í samningi Þóru við Óperuna er vísað til kjarasamnings FÍH við Óperuna. Óperustjóri hefur hins vegar sagt að kjarasamningur Íslensku óperunnar og FÍH hafi aðeins gilt þegar einsöngvarar voru fastráðnir við Íslensku óperuna en það séu þeir ekki lengur. Hún þurfi því ekki að fara eftir honum. Gunnar sagði hins vegar í samtali við fréttastofu í apríl að samningnum hefði aldrei verið sagt upp og því ætti hann að gilda sem viðmið um lágmarkslaun.

Þóra sagði á sínum tíma að mikilvægt sé að niðurstaða fáist í málið svo söngvarar viti hvar þeir standa.