Hertar reglur á landamærum ein forsenda tilslakana

08.01.2021 - 12:40
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir tilefni til að slaka á sóttvarnareglum ef fram heldur sem horfir, svo lengi sem reglur eru hertar á landamærunum. 68 landamærasmit hafa greinst frá áramótum.

Tveir greindust með kórónuveiruna innanlands í gær og fimmtán á landamærunum. Þórólfur hefur lagt það til við heilbrigðisráðherra að fólk verði skyldað til að fara tvisvar í skimun, en ef það kjósi að fara frekar í fjórtán daga sóttkví verði það í sóttvarnahúsinu á meðan. Þá þurfi börn fædd 2005 eða síðar einnig að fara í sóttkví, ólíkt því sem nú er.

„Nú þegar við erum með þetta breska afbrigði sem virðist vera meira smitandi en önnur afbrigði þurfum við að vera alveg extra vel á verði. Núna erum við búin að greina á landamærunum 26 með þetta afbrigði og við viljum reyna að gera allt sem hægt til að koma í veg fyrir að það fari að breiða úr sér innanlands,“ segir Þórólfur.

Hann hefur þegar skilað tillögum til heilbrigðisráðherra um sóttvarnaaðgerðir sem taka gildi 13. janúar.

„Eins og staðan lítur út núna þá held ég að tilefni sé til að slaka hérna innanlands ef þetta heldur áfram svona vel en ég held að það sé varla hægt að gera nema herða verulega á á landamærunum og tryggja að við förum ekki að fá meira smit hérna inn núna á þessum tímapunkti,“ segir Þórólfur.