
Eldurinn kviknaði um hálfsjöleytið í morgun. Hann var töluverður og slökkviliðið beindi því til íbúa á Esjumelum og í Leirvogstunguhverfi í Mosfellsbæ að loka gluggum. Slökkvistörf tóku hátt í þrjár og hálfa klukkustund.
Varðstjóri slökkviliðsins sagði í samtali við fréttastofu í morgun að kviknað hefði í dekkjakurli, sem notað er til að stafla rusli, og að það hefði komið fyrir nokkrum sinnum áður. Sennilega hefði orðið sjálfsíkveikja en hún orsakaðist af lífrænum úrgangi á móttökustað Sorpu sem var hætt að nota þegar GAJA, gas- og jarðgerðarstöð Sorpu opnaði. Starfsfólk Sorpu og verktakar á svæðinu mokuðu sandi og drullu yfir haugana til að stöðva útbreiðslu eldsins.
Fréttastofa birti í morgun myndskeið af brunanum sem má sjá hér að neðan. Bragi Valgeirsson tók myndskeiðið.