Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Gul veðurviðvörun á austanverðu landinu á morgun

08.01.2021 - 06:26
Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Veðurstofan spáir suðvestanátt 10-18 m/s og rigningu eða slyddu í dag, en úrkomulítið verður austanlands. Hlýrra í veðri en síðustu daga, hiti verður á bilinu 1-6 stig. Eftir hádegi í dag dregur úr úrkomu en snýst í vaxandi norðlæga átt síðdegis og í kvöld má búast við snjókomu eða éljum og ört kólnandi veðri.

Hvessir hressilega á morgun með norðvestan 20-28 m/s í fyrramálið, en hægari vindi um landið vestanvert. Snjókoma á Norður- og Austurlandi, og dálítil él vestantil, annars þurrt að kalla.

Gular veðurviðvaranir taka gildi í nótt og eldsnemma í fyrramálið á Norðurlandi eystra (03:00 – 16:00), Austurlandi að glettingi (04:00 – 18:00), Austfjörðum (05:00 – 20:00) og Suðausturlandi (05:00 – 17:00). Þar er varað við slæmum akstursskilyrðum og engu skyggni. Vindhviður geta sums staðar náð upp undir 45 m/s, einkum austan Öræfa. 

Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Vindaspá Veðurstofu Íslands kl. 14:00 á morgun

Frost verður á bilinu 2 til 10 stig á morgun. Dregur úr vindi eftir hádegi og styttir upp um landið norðanvert. Víða hægviðri annað kvöld, en norðvestan 13-20 austantil.

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV