Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fimm fyrir gleðilegt nýtt ár

Mynd með færslu
 Mynd: Viagra Boys & Amil - Facebook

Fimm fyrir gleðilegt nýtt ár

08.01.2021 - 12:00

Höfundar

Það er kominn tími til að keyra þetta 2021 ár í gang og fyrsta fimma ársins heilsar nýju ári með stælgæjaköntrí frá graðfolunum í Viagra Boys, smá smjörsýru frá Dry Cleaning, rafrænni ábreiðu af írsku Corrs-fjölskyldunni frá Caroline Polachek, áhyggjum Avalon Emerson af umhverfismálum og vinnusama teknófolanum Four Tet.

Viagra Boys – In Spite Of Ourselves

Sænsku töffararnir í Viagra Boys senda frá sér nýju plötuna sína Welfare Jazz í dag sem er fagnaðarefni fyrir alla tennisaðdáendur. Í laginu In Spite Of Ourselves taka þeir snúning á John Prine-laginu In Spite of Ourselves ásamt áströlsku pubbarokksprinsessunni Amyl úr Amyl & the Sniffers og það má segja að Stokkhólmsdjöflarnir hitti unga og hressa ömmu sína.


Dry Cleaning – Scratchcard Lanyard

Enn eitt póstpönkbandið frá Lundúnum eru hressu krakkarnir í Dry Cleaning sem gefa út hjá gömlu vinnuveitendum Gusgus, útgáfufyrirtækinu 4ad. Lagið þeirra Scratchcard Lanyard er búið til með smá aðstoð frá John Parish sem er þekktur fyrir vinnu sína með PJ Harvey og Nick Cave og fjallar meðal annars um gljáandi banana en þau eru mjög hrifin af þeim ávexti.


Caroline Polachek – Breathless

Fleiri ábreiður því bandaríska indípopppæjan Caroline Polachek hefur sent frá sér eina slíka af lagi Corrs, Breathless. Annars hefur Caroline helst fengist við endurhljóðblandanir á eigin stöffi síðan hún sendi frá sér plötu sína Pang árið 2019.


Avalon Emerson – Rotting Hills

Tónlistarkonan og plötusnúðurinn Avalon Emerson hefur orð á sér fyrir ferskan stíl og að blanda saman tónlist á óvæntan og skapandi hátt. Núna í desember sendi hún frá sér lagið Rotting Hills sem gerir akkúrat það ásamt því að hafa áhyggjur af umhverfismálum og tómum dansgólfum.


Four Tet – Paralelle4

Kieran Hebden eða bara Four Tet var frekar duglegur í desember og gaf út tvær plötur, jólagjöfina í ár, Paralelle, og Solo Ancestors sem hann vann með pródúsernum Madlib. Það var ekki eina samstarfið því einnig komu í desember út tvö lög sem hann vann með Thom Yorke og Burial sem eru í tilraunakenndari kantinum.


Fimman á Spottanum