Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Demókratar stefna að því að kæra Trump í næstu viku

08.01.2021 - 15:08
epa08925254 Speaker of the House Nancy Pelosi delivers remarks during a press conference in the US Capitol in Washington, DC, USA, 07 January 2021. Speaker Pelosi called for the removal of US President Donald J. Trump either by the cabinet invoking the 25th amendment or possibly through the House taking up articles of impeachment.  EPA-EFE/SHAWN THEW
Nancy Peloci, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Mynd: EPA-EFE - EPA
Demókratar í fulltrúadeild Bandaríkjaþings róa að því öllum árum að fá Donald Trump, fráfarandi forseta, ákærðan fyrir embættisglöp, eftir að æstur múgur réðist inn í þinghúsið í fyrradag. Stefnt er að því að hægt verði að kjósa um kæruna í deildinni í næstu viku.

Þetta hefur CNN eftir heimildarmönnum sínum. Sextíu þingmenn Demókrata, undir forystu Dean Phillips, Debbie Wasserman Schultz og Tom Malinowski, hafa sent leiðtogum Demókrataflokksins bréf og hvatt þá til að kalla þingið saman vegna málsins. 

Forsetinn boðaði stuðningsmenn sína til fundar í fyrradag, á meðan þingið fór yfir atkvæði kjörmanna, og til stóð að það myndi staðfesta kjör Joes Biden, verðandi forseta. Forsetinn sagði að þetta yrði sögulegt og ávarpaði fjöldann og hélt því fram að sigri í kosningunum hafi verið stolið af honum. Fjöldi fólks mætti og að lokum braust það inn í þingið. Koma þurfti þingmönnum í skjól og fimm fórust í áhlaupinu.

epa08926300 Supporters of US President Donald J. Trump and his baseless claims of voter fraud run through the Rotunda of the US Capitol after breaching Capitol security during their protest against Congress certifying Joe Biden as the next president in Washington, DC, USA, 06 January, 2020 (issued 08 January 2020). On 08 January Assistant House Speaker Katherine Clarke said the House will move to impeach President Trump if the Vice President and Cabinet do not remove him on their own.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA

CNN hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Repúblikanaflokksins að nokkur hluti þeirra vilji koma Trump úr embætti sem fyrst. Tveir þingmenn flokksins hafa sagt við CNN að þeir verði með, ef þeir telji ákærurnar á réttum forsendum. „Við urðum fyrir árás og það þarf ekki langar yfirheyrslur um það sem gerðist,“ segir annar þeirra við CNN. Ben Sasse, þingmaður Repúblikana frá Nebraska, kveðst ætla að íhuga að styðja ákæru á hendur forsetanum. 

Eftir óeirðirnar hefur þeim möguleika verið velt upp að beita 25. viðauka bandarísku stjórnarskrárinnar um að víkja forsetanum úr embætti því hann sé ekki hæfur til að sinna því. Greint var frá því í morgun að Mike Pence, varaforseti, væri ekki hlynntur því en hann er meðal þeirra sem þurfa að samþykkja slíkt.