Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búa sig undir óveður við erfiðar aðstæður á Seyðisfirði

Spáð er vonskuveðri á austurhelmingi landsins í kvöld og á morgun. Á Seyðisfirði var unnið að því í dag að ganga frá og festa niður þakplötur og aðra lausamuni áður en stormurinn skellur á. Appelsínugul viðvörun tekur gildi í nótt.

Ekkert ferðaveður

Appelsínugul viðvörun tekur gildi klukkan þrjú í nótt fyrir Norðausturland, Austurland, Austfirði, Suðausturland og miðhálendið. Talið er að veðrið verði einna verst á Austfjörðum, þar er spáð ofsaveðri og hviður geta farið yfir 45 metra á sekúndu. Ekkert ferðaveður er á þessum slóðum meðan veðrið gengur yfir og eru vegfarendur hvattir til þess að fylgjast vel með veðurspá.

Reyna að binda niður þakplötur og rústir

Á Seyðisfirði er hreinsunarstarf eftir aurskriðurnar enn í fullum gangi. Þar hafa starfsmenn sveitarfélagsins reynt að binda niður þakplötur og annað lauslegt í dag við krefjandi aðstæður. 

„Við erum í nokkrum vandræðum með það því skriðan er svo blaut og við komum ekki tækjunum semsagt, upp á skriðuna þannig að eins og þú hefur séð þá erum við bara með handafl í því að tína af þessu bárujárn og annað sem við höfum áhyggjur af því að fjúki á morgun,“  segir Jón Egill Sveinsson, verkefnisstjóri hjá Múlaþingi. 

„Það eru hérna brotin hús og flaksandi þök“ 

„Það er auðvitað ýmislegt hérna sem getur fokið. Það eru hérna brotin hús og flaksandi þök sem við hreinlega treystum okkur ekki til þess að fara upp á til þess að tryggja og við verðum bara að vona það besta með það.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Stefánsson - RÚV
Frá Seyðisfirði í dag