Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Betsy DeVos menntamálaráðherra Trumps segir af sér

Mynd með færslu
 Mynd: AP
Betsy DeVos menntamálaráðherra í stjórn Donalds Trump Bandaríkjaforseta hefur tilkynnt afsögn sína vegna árásar stuðningsmanna hans á þinghúsið í Washington.

Ráðherrann segir forsetann hafa kynt undir ofbeldið í ræðu sinni. Í bréfi til Trumps segir DeVos slíka framkomu svívirðilega. „Það er augljóst hvaða áhrif boðskapur þinn hafði á aðstæðurnar, hann var að mínu mati kveikjan að því sem gerðist,“ segir Betsy DeVos.

Elaine Chao, samgönguráðherra, tilkynnti einnig afsögn sína í gær. The New York Times birti í gær lista yfir það fólk úr starfsliði forsetans sem sagt hefur upp störfum frá því að áhlaupið var gert á þinghúsið.

Auk ráðherranna tveggja má nefna Söruh Matthews, sérlegan ráðgjafa og aðstoðar-talsmann, Trumps, sem sagði sér afar brugðið vegna þess sem hún hefði orðið vitni að.

Muck Mulvaney sérstakur erindreki Bandaríkjastjórnar á Norður-Írlandi sagði sér nóg boðið og kvaðst sannfærður um að fleiri ættu eftir að hverfa á braut. Allmargir öldungadeildarþingmenn sneru baki við forsetanum í gær.

Þeirra á meðal eru Mitch McConnell leiðtogi þeirra og Lindsay Graham sem báðir höfðu fram að því verið forsetanum afar tryggir.