Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Að skylda fólk í Farsóttarhús er neyðarúrræði

Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir vill skylda þá, sem koma til landsins og vilja ekki fara í tvöfalda sýnatöku, til að fara í 14 daga sóttkví í Farsóttarhúsi. Hann segir að það sé neyðarúrræði sem þurfi að grípa til svo faraldurinn blossi ekki upp aftur. Áhyggjuefni sé hversu mörg smit greindust við landamærin í gær.

Hingað til hafa þeir sem koma til landsins haft val um að fara í tvær sýnatökur með fimm daga millibili eða 14 daga sóttkví. Flestir velja sýnatökuna, en nokkuð hefur verið um að þeir sem velja síðari kostinn fari ekki í sóttkví með tilheyrandi smithættu. Þórólfur hefur lagt til við heilbrigðisráðherra að fólk hafi ekki þetta val.

„Ef það er ekki talið vera kostur, þá fari fólk í sóttkví þar sem hægt er að fylgjast vel með því. Við vitum að undanfarið hefur fólk margsinnis verið staðið að því að ætla að fara í sóttkví, en svo er það bara komið út í bæ.“ 

Er þetta neyðarúrræði? „Þetta er tilraun til að reyna að minnka möguleikana enn frekar. Ég held að við séum með faraldurinn alveg í lágmarki hérna en hann er í mikilli uppsveiflu erlendis. Við erum að sjá mjög mikið af smitum á landamærunum og við verðum að reyna að gera allt sem hægt er til þess að fara ekki að fá fleiri smit þar. Sérstaklega núna, þegar við erum að sjá þennan breska stofn vera að koma upp, sem virðist vera töluvert meira smitandi en aðrir stofnar. Ég held að það sé mikið til vinnandi að reyna eins og hægt er að koma í veg fyrir það að þurfa að fá smit inn í landið.“

Þyrfti þetta að taka gildi eins fljótt og hægt er? „Já, ég lagði það til í mínu minnisblaði. Það er bara spurning um hvenær það væri. Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta komi til framkvæmdar eins fljótt og mögulegt er.“