Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Verði öðrum víti til varnaðar

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Mikilvægt er að hæstiréttur hafi staðfest í dag að Byko hafi brotið alvarlega gegn samkeppnislögum, segir forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Dómurinn þurfi að vera öðrum víti til varnaðar á tímum efnahagssamdráttar. Keppinautar á fákeppnismarkaði þurfi að gæta sín sérstaklega í samskiptum sín í milli og að hafa ekki verðsamráð sem sé til þess fallið að hækka vöruverð.

Málið á rætur að rekja tíu ár aftur í tímann þegar forsvarsmenn Múrbúðarinnar leituðu til Samkeppniseftirlitsins. Múrbúðin var þá að hefja samkeppni um timbursölu og aðra grófvöru og sagði keppinautana, Byko og þáverandi eigendur Húsasmiðjunnar, hafa reynt að fá Múrbúðina með sér til þátttöku í ólögmætu verðsamráði.

„Þetta voru mjög gróf brot sem fólu í sér víðtækt samráð á milli helstu keppinautanna á mjög mikilvægum markaði á tíma þar sem þjóðin og heimilin í landinu voru að komast út úr kreppunni og var þess vegna til þess fallið að hækka verð t.d. á byggingu og hafa mikil smitáhrif. Þannig að þetta voru mjög alvarleg brot,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Þætti Húsasmiðjunnar lauk tvö þúsund og fjórtán með sátt og sektargreiðslu en forráðamenn Byko vildu láta reyna á málið.

Með ákvörðun Samkeppniseftirlitsins 2015 var Byko sektað um 650 milljónir króna. Málið fór fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála og svo öll dómstig.

  • Áfrýjunarnefnd lækkaði sektina í 65 milljónir.
  • Samkeppnieftirlitið höfðaði mál og héraðsdómur hækkaði sektina í 400 milljónir.
  • Byko áfrýjaði til Landsréttar sem lækkaði sektina í 325 milljónir
  • Samkeppniseftirlitið fór með málið fyrir hæstarétt sem dæmdi því í vil í dag og hækkaði sektina á ný í 400 milljónir.

 

Hæstiréttur staðfesti að Byko hefði brotið alvarlega gegn lögum. Páll Gunnar segir dóminn þýðingarmikinn.

„Hann auðvitað segir okkur ýmislegt, m.a. undirstrikar það hversu mikilvægt það er að keppinautar á þessum litlu fákeppnismörkuðunum sem við búum við hér á landi, gæti sín alveg sérstaklega í samskiptum, hafi ekki samráð sín á milli, séu ekki með upplýsingamiðlun sín í milli eins og í þessu máli, sem er þá til þess fallið að hækka verð. Og ég tala nú ekki um núna við þessar aðstæður þegar við erum að komast út úr enn einni kreppunni, þá er gríðarlega mikilvægt að þetta mál verði öðrum víti til varnaðar,“ segir Páll Gunnar.