Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Trump segir að valdaskiptin verði friðsöm

epa08821908 (FILE) - US President Donald J. Trump speaks on the election night at an event at the White House in Washington, DC, USA, 04 November 2020 (15 November 2020). President Donald Trump has finally admit to losing the election in a tweet, after days of refusing to concede to President-elect Joe Biden.  EPA-EFE/CHRIS KLEPONIS / POOL
 Mynd: EPA-EFE - CONSOLIDATED NEWS PHOTOS POOL
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefur staðfest kjör Joe Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna. Sífellt kvarnast úr hópi stuðningsmanna Donalds Trump, bæði á þinginu sem og í starfsliði hans. Trump segir að valdaskiptin verði friðsöm.

Mike Pence staðfesti á Bandaríkjaþingi nú rétt fyrir fréttir að Biden hefði tryggt sér 306 kjörmenn í forsetakosningunum í nóvember í fyrra. Trump fékk 232 kjörmenn og Biden því næsti forseti Bandaríkjanna. 

Dan Scavino, samfélagsmiðlafulltrúi Donalds Trump, birti yfirlýsingu frá forsetanum rétt í þessu. Trump gat ekki birt yfirlýsinguna sjálfur þar sem Twitter lokaði á reikning forsetans í 12 tíma í gær. Í yfirlýsingunni segir að þó að Trump sé verulega ósammála úrslitum kosninganna muni valdaskiptin 20. janúar fara friðsamlega fram. 

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeild Bandarikjaþings, sagði á níunda tímanum að ekki væri ástæða til að ræða frekari efasemdir um réttmæti forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Bandaríkjaþing hefur þegar vísað frá öllum athugasemdum stuðningsmanna Donalds Trump innan þingsins um réttmæti kosninganna í ríkjum á borð við Georgíu, Nevada, Michigan, Arizona og Pennsylvaníu.

McConnell sagði sömuleiðis að óþjóðalýður og hótanir fengju ekki að standa í vegi fyrir þingstörfunum. 

McConnel er einn þeirra Repúblikana sem studdi upphaflega ósannaðar fullyrðingar Bandaríkjaforseta um að Trump hefði réttilega sigrað kosningarnar en að úrslitunum hefði verið hagrætt af Demókrötum. Því ráku nokkur upp stór eyru í gær þegar McConnell sagði í annarri ræðu á þinginu að allar tilraunir til að mótmæla nirðustöðum kosninganna gætu verið stórkoslega hættulegar fyrir lýðræðið í Bandaríkjunum.

Kvarnast úr stuðningsmannahópnum

Og McConnell virðist ekki eini bandamaður Trumps sem virðist hafa snúið við honum baki eftir atburði næturinnar. 

Fjölmiðlar vestra fullyrða að Matt Pottinger, aðstoða öryggisráðgjafi Trumps, ætli að segja starfi sínu lausu. Þegar hafa allavega þrjú úr starfsliði Hvíta hússins ákveðið að segja upp störfum.

Þingmenn Demókrataflokksins í dómsmálanefnd þingsins sendu Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna bréf í kjölfar atburða næturinnar með beiðni um að beita skyldi 25.viðauka Bandaríkjanna gagnvart Trump. Sá viðauki heimilar að forseta sé vikið frá störfum sé hann af einhverjum orsökum óhæfur til að gegna embætti sínu. 

Fréttastöðvar á borð við ABC og CBS segja af samræðum innan ríkisstjórnar Trumps um viðlíka áform, að koma forsetanum frá störfum. 13 dagar eru eftir af stjórnartíð Trumps en Joe Biden sver embættiseiðinn í Washington þann 20. janúar. 

 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV