Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingmenn Demókrata krefjast embættissviptingar Trumps

Mynd með færslu
Donald Trump. Mynd: EPA
Þingmenn Demókrataflokksins í dómsmálanefnd þingsins sendu Mike Pence varaforseta bréf í kvöld þess efnis að að beita skyldi 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna gagnvart Donald Trump Bandaríkjaforseta. Sá viðauki heimilar að forseta sé vikið frá teljist hann af einhverjum orsökum óhæfur að gegna embætti sínu.

Í bréfinu er vísað til ræðu forsetans í gær sem sýni að hann sé í ójafnvægi og óhæfur til að sætta sig við ósigurinn í kosningunum 3. nóvember. Ráðherrar í ríkisstjórn Donalds Trump eru sömuleiðis sagðir hafa rætt sín á milli hvort beita ætti viðaukanum.

Að minnsta kosti þrír bandarískir miðlar hafa greint frá því. CNN fréttastofan hefur eftir ónafngreindum forystumönnum innan Repúblikanaflokksins að þessi möguleiki hafi verið nefndur enda væri forsetinn stjórnlaus í athöfnum.

Margaret Brennan, fréttamaður hjá CBS, segir að ríkisstjórnin hafi ekki farið þess formlega á leit við Michael Pence varaforseta að Trump verði vikið frá völdum.

Katherine Faulders hjá ABC fréttastofunni segir fjölda heimildamanna hafa fullyrt við sig að þessar hugmyndir hefðu verið viðraðar. Ýmislegt í framferði forsetans undanfarið, ásakanir hans um kosningasvindl og hvatning til mótmæla í dag séu meðal þess sem sagt er hafa kveikt efasemdir um getu hans til að sitja áfram við stjórnvölinn.

Aðeins lifa tvær af kjörtímabili Trumps en nýr forseti tekur við völdum 20. janúar næstkomandi.