Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þingið jafnvel tilbúið að kæra Trump fyrir embættisglöp

Mynd: Skjáskot / Twitter
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, biðlaði til Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, í dag að virkja 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjanna undir eins til að koma Bandaríkjaforseta, Donald Trump, frá völdum áður en hann lætur af embætti 20.janúar.

„Ég sammælist leiðtoga Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings í því að ákalla varaforseta til þess að fjarlæga þennan forseta úr embætti með því að virkja 25. grein stjórnarskrár undir eins,“ sagði Pelosi á blaðamannafundi sem var klukkan hálf fimm í dag í Washington að staðartíma.

Hún sagði neyðarástand ríkja. „Þetta er hættuleg manneskja sem á ekki að sitja lengur í embættinu,“ sagði hún. 

„Ef ekki verður brugðist strax við er þingið mögulega tilbúið að ákæra fyrir embættisglöp,“ bætti hún við til að leggja áherslu á orð sín. Aðeins 13 dagar eru í að Trump láti af embætti.

 

Adam Kinzinger, þingmaður Repúblikana sagðist í dag fylgjandi því að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar. Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, sagði einnig að tilefni væri til að ákæra Trump til embættismissis.

Í 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna er kveðið á um leiðir sem fara eigi þegar forseti víkur úr embætti, þegar hann annað hvort fellur frá, er vikið úr embætti eða getur af einhverjum öðrum orsökum ekki sinnt starfi sínu áfram.