Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stuðningsmenn Trumps réðust inn í bandaríska þingið

07.01.2021 - 15:21
epaselect epa08923451 Supporters of US President Donald J. Trump in the Capitol Rotunda after breaching Capitol security in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Protesters entered the US Capitol where the Electoral College vote certification for President-elect Joe Biden took place.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Mannfjöldi réðst inn í bandaríska þingið í gærkvöldi. Það voru stuðningsmenn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Margir þeirra voru vopnaðir. Trump neitar að viðurkenna að hafa tapað forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember.

Trump hvatti fylgjendur sína til að fara að þinghúsinu

Bandaríska þingið er í höfuðborg Bandaríkjanna, Washington DC. Þar er líka Hvíta húsið, sem er bústaður og vinnustaður forsetans.

Donald Trump hélt ræðu yfir stuðningsmönnum sínum fyrir utan Hvíta húsið í gær. Hann hvatti þá til að fara að þinghúsinu. Mannfjöldinn hlýddi því og ruddist inn í þingið.

Lögreglan skaut konu til bana. Tveir karlar og ein kona í hópnum dóu af öðrum orsökum. 52 voru handteknir. 14 lögreglumenn særðust, einn þeirra alvarlega. Þá fundust tvær sprengjur og bíll sem var fullur af bensínsprengjum.

Útgöngubann er í Washington DC frá sex að kvöldi til sex að morgni. Það gildir til 21. janúar. Daginn áður, 20. janúar, tekur Joe Biden við embætti forseta. Hann vann forsetakosningarnar í nóvember.

Fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna bregðast við

Þrír fyrrverandi forsetar Bandaríkjanna hafa fordæmt það sem gerðist. Það þýðir að þeir hafi skömm á því. Þetta eru Barack Obama, George W. Bush og Bill Clinton.

Barack Obama segir að Trump hafi sáð fræjum sem sundra þjóðinni. „Ofsafengnar afleiðingar þess sáum við í dag,“ sagði hann í gærkvöldi.

George W. Bush segir að fólk mótmæli ekki úrslitum kosninga með þessum hætti í lýðræðisríki.

Bill Clinton segir að forsetatíð Trumps hafi verið fjögur ár af eitruðum stjórnmálum og upplýsingaóreiðu. Það hafi verið kveikjan að árásinni á þinghúsið.

Donald Trump birti sjálfur ávarp á Twitter í gær. Hann fordæmdi aðgerðirnar ekki. Hann sagði innrásarfólkinu að fara heim. „Farið heim, þið eruð einstök. Ég elska ykkur,“ skrifaði hann.

Þingmenn Demókrata vilja að Trump verði vikið úr embætti

Nokkrir mikilvægir starfsmenn Trumps sögðu upp störfum eftir atburðina í gær. Þar á meðal eru öryggisráðgjafi hans og blaðafulltrúi.

Þingmenn Demókrataflokksins vilja að Trump verði vikið úr embætti nú þegar. Ræða forsetans í gær sýni að hann sé í ójafnvægi og geti ekki sætt sig við ósigurinn í kosningunum. Ráðherrar í ríkisstjórn Trumps eru líka sagðir hafa rætt sín á milli um hvort það eigi að víkja honum frá.