Skautunin í bandarísku samfélagi komin til að vera

07.01.2021 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Atburðir gærdagsins eru skiljanlegt framhald af aukinni skautun í bandarísku samfélagi. Þetta sagði Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum, í viðtali í Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

„Í nútímasögu mótmæla þá kannski er ofarlega í huga margra slagurinn um útnefninguna 1968 og mótmælin sem voru þá í Chicago, sem fylgdu í kjölfar áratugalangrar baráttu um stöðu svartra í Bandaríkjunum. Þetta minnir mann að einhverju leyti á þá skautun sem var í samfélaginu þá og hversu brotakennt samfélagið var orðið,“ útskýrir hún.

Skautunin komin til að vera

Silja Bára bendir á að fyrir 40-50 árum hafi rannsóknir vestanhafs sýnt að 60-80 prósent af fylgjendum beggja flokka gætu hugsað sér að ganga í hjónaband með einhverjum með ólíka stjórnmálaskoðun. Núna sé hlutfallið í kringum 20 prósent. Þá hafi skautun milli ólíkra kynslóða aukist mjög. 

Hún efast um að þjóðin sameinist um leiðtoga í bráð: „Það er mjög ólíklegt að við sjáum sátt myndast um stefnu og stjórnun annars flokksins. Þótt það séu 50 þingmenn úr hvorum flokki í öldungadeildinni þá hafa Demókratar þar með völdin vegna þess að varaforsetinn er með úrslitaatkvæði.“

Hún telur að skautunin sé komin til að vera og segir það birtast skýrt í þinginu: „Á 8.-10. áratugnum sáum við þingmenn kjósa með málum sem voru lögð fram af fulltrúum hinna flokkanna, en það er meira og minna horfið, alla vega í stórum málum,“ segir hún. 

Trump sleppir ekki sínum ræðustól

Silja Bára segir ljóst að Trump sé ekki á leið úr sviðsljósinu. „Hann hefur tugi milljóna fylgjenda á Twitter. Auðvitað var talað um það árið 2016 að hann hefði mestan áhuga á að verða fjölmiðlastjarna og vildi stofna fjölmiðil. Hann gat aldrei sest öruggur í valdið og endurspeglar brothætta karlmennsku og óttann við að fólk taki hann ekki alvarlega af því hann veit að hann fékk færri atkvæði. Þá hefur hann alltaf verið að grafa undan tiltrú fólks á kerfinu, sem þó skilaði honum embættinu,“ segir hún. 

„Ég býst við að hann hafi hugmyndir um að búa til einhvers konar ættarveldi, hvort sem það er að eitt af börnunum hans fari fram eða að hann bjóði sig aftur fram,“ segir hún.

Þingmenn vilja ákæra Trump fyrir embættisglöp

Silja Bára segir ótrúlegt að fylgjast með sitjandi forseta hvetja til mótmæla við sitjandi stjórnvöld. Í ljósi þess sé skiljanlegt að þingfólk leggi drög að því að fara aftur í ákæruferli gegn forsetanum. Hún segir að slíkt gæti farið í gegn núna, fengi það flýtimeðferð og forgang í báðum deildum. „Það tekur svolítinn tíma, það þarf ákærumeðferð í fulltrúadeildinni og svo réttarhöld í öldungadeildinni,“ segir hún.