
Sendiráð Bandaríkjanna vísar viðtalsósk vestur um haf
Fréttastofa hafði samband við sendiráð Bandaríkjanna hér á landi í morgun til að leita viðbragða við atburðum gærdagsins af hálfu Jeffrey Ross Gunter, sendiherra Bandaríkjanna hér á landi.
Í svari segir að sendiráðið hafi fengið þau fyrirmæli frá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna að benda á Twitter-færslu Mikes Pompeo en að öðru leyti vísa öllum fyrirspurnum til upplýsingaskrifstofu stjórnvalda í Bandaríkjunum.
Pompeo segir á Twitter að óöldin við þinghúsið í gær sé óásættanleg og að lögleysa og uppþot sé aldrei liðið. Á ferli sínum hafi hann ávallt stutt réttindi fólks til friðsamlegra mótmæla. Ofbeldi í garð þeirra sem stuðla að öryggi þjóðarinnar sé ólíðandi með öllu og það eigi að sækja þá sem tóku þátt í slíku til saka. Bandaríkin séu betri en það sem fyrir augu bar í gær.
Twitter færslu Pompeo má sjá hér fyrir neðan.
America is better than what we saw today at a place where I served as a member of Congress and saw firsthand democracy at its best.
— Secretary Pompeo (@SecPompeo) January 6, 2021