Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Seldu flugelda fyrir um 800 milljónir króna

07.01.2021 - 22:19
Mynd: RÚV - Kristján Þór Ingvarsso / RÚV
Tekjur björgunarsveitanna um áramótin nema um 800 milljónum króna, sem er tíu til fimmtán prósenta aukning frá í fyrra. Formaður Landsbjargar segir að það væri óábyrgt af stjórnvöldum að skerða þessa fjáröflun, án þess að bæta þá skerðingu með öðrum hætti.

Þrettándinn var í gær og þá lauk jafnframt flugeldasölu, en samkvæmt lögum má ekki selja þá lengur en til 6. janúar. Forsvarsmenn Landsbjargar eru ánægðir með söluna þessi áramótin.

„Á heildina litið virðist hafa gengið mjög vel. Það hefur verið samdráttur síðustu tvö eða þrjú ár en núna virðist vera 10-15% aukning. Þannig að nettótekjur björgunarsveitanna af flugeldasölu þetta árið gæti verið í kringum 800 milljónir,“ segir Þór Þorsteinsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

„Flugeldar menga“

Mikil loftmengun mældist á höfuðborgarsvæðinu um áramótin, enda mikið hægviðri.

„Já við vitum vel að flugeldar menga eins og margt annað,“ segir Þór. „En við áttum jafnvel von á að það yrði meiri mengun en raunin varð og möguleg skýring á því er sú að það voru ekki brennur þessi áramót. Þær menga líka.“

Stjórnvöld hafa haft í hyggju að breyta fyrirkomulagi flugeldasölu, til þess að draga úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna flugeldamengunar. Starfshópur hefur meðal annars lagt til að dögum sem selja má flugelda verði fækkað og að aðeins verði heimilt að skjóta upp stærri flugeldum á gamlársdag, nýársdag og á þrettándanum. Ákveðið var að fresta þessum breytingum vegna faraldursins, en ekki hefur fengist svar frá dómsmálaráðuneytinu um hvort til standi að breyta reglunum fyrir næstu áramót.

„Við erum í sjálfu sér engir talsmenn flugeldasölu „per se“. Við þurfum hins vegar á þessari fjáröflun að halda og við erum ansi stór hluti af almannavarnaviðbragði landsins. Og við teljum að það sé frekar óábyrgt að koma með einhverjar tillögur að skerðingu á þessari fjáröflun okkar, nema eitthvað annað komi þá í staðinn,“ segir Þór.