Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Schumer vill Trump burt

07.01.2021 - 18:02
epa08922820 Democratic Senate Minority Leader Chuck Schumer speaks to the media the morning after the Georgia Senate runoff in Washington, DC, USA, 06 January 2021. Democrats Jon Ossoff and Raphael Warnock are currently leading their senate races. If their numbers hold, the Democrats will take the US Senate.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Chuck Schumer, leiðtogi Demókrata í öldungadeild Bandaríkjaþings vill að Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, verði vikið úr embætti, og það strax.

Í yfirlýsingu frá Schumer segir að árásin á þinghúsið í gær hafi verið uppreisn gegn Bandaríkjunu, runnin undan rifjum Donalds Trump. Forsetinn ætti ekki að fá að sitja á valdastóli deginum lengur. Það sé annað hvort hægt að virkja 25. grein stjórnarskrár Bandaríkjana til að koma honum frá völdum, eða ákæra hann til embættismissis, segir Schumer. 

Í 25. viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna er kveðið á um leiðir sem fara eigi þegar forseti víkur úr embætti, þegar hann annað hvort fellur frá, er vikið úr embætti eða getur af einhverjum öðrum orsökum ekki sinnt starfi sínu áfram.

Ákvæðið var lagt fyrir þingið til samþykktar eftir að John F. Kennedy var skotinn til bana í Dallas árið 1963. Þá var það varaforsetinn Lyndon B. Johnson sem tók við embættinu.  Sömuleiðis þegar Richard M. Nixon sagði af sér embætti í kjölfar Watergate hneykslisins. 

Fleiri vilja hann burt

Schumer er alls ekki eini þingmaðurinn sem er þeirrar skoðunar að Trump sé ekki lengur stætt í embætti, þó að einungis 13 dagar séu eftir af stjórnartíð hans. Adam Kinzinger, þingmaður Repúblikana sagðist í dag fylgjandi því að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar. Alexandria Ocasio-Cortez, þingkona Demókrata, sagði að tilefni væri til að ákæra Trump til embættismissis.