Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Repúblikanar snúa baki við Trump

Mynd: EPA-EFE / EPA
Svo virðist sem fjöldafundur stuðningsmanna Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í gær og árásin á þinghúsið eftir fundinn hafi orðið til þess að margir dyggir stuðningsmenn forsetans hafi snúið við honum baki.  Margir gera forsetann ábyrgan fyrir árásinni á þinghúsið, Capitol, í gær. Á fundinum með stuðningsmönnum sínum hvatti Trump þá til að marséra að þinghúsinu.

Hinir veikgeðja ná ekki völdum

Trump sagði á fundinum með stuðningsmönnum sínum að hinir veikgeðja næðu ekki völdum aftur, aðeins hinir sterku. Hann sagði einnig að hann ætlaði sér aldrei að gefast upp.

Vildi koma í veg fyrir staðfestingu þingsins

Trump krafðist þess að stuðningsmenn sínir í þinginu kæmu í veg fyrir að kjör Joe Bidens yrði staðfest. Það var of mikið fyrir Mitch McConnell, leiðtoga Repúblikana í öldungadeildinni sem hingað til hefur verið sauðtryggur forsetanum. Hann sagði að ef kjör Bidens yrði ekki staðfest væri úti um lýðræðið.

Krosstré bregðast

Annar helsti stuðningsmaður forsetans, Lindsay Graham, var líka búinn að fá nóg. Hann sagði að Joe Biden og Kamala Harris væru réttkjörin. Kelly Loeffler, sem tapaði öldungadeildarsæti sínu í Georgíu í gær, sneri einnig við blaðinu og hætti við að greiða atkvæði gegn staðfestingu forsetakosninganna. Hið sama gerðu öldungadeildarþingmennirnir James Lankford og Steve Daines.

Kallaði Pence bleyðu

Trump tísti eftir að Mike Pence varaforseti óhlýðnaðist fyrirskipun um að stöðva staðfestingu þingsins og sagði Pence hafa brostið kjark. Þá berast fréttir af uppsögnum í Hvíta húsinu, þannig er Sarah Matthews, sérlegur ráðgjafi og varatalsmaður Trumps, hætt vegna atburða gærdagsins.