Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Repúblikanaflokkurinn þarf að fara í naflaskoðun

07.01.2021 - 17:38
Mynd: EPA / EPA
Múgurinn, sem réðst inn í þinghúsið í Bandaríkjunum í gær, er ekki dæmigerður fyrir stuðningsfólk Repúblikanaflokksins, heldur lítill hópur öfgasinnaðra Trump fylgjenda. Þetta segir Halla Hrund Logadóttir stjórnmálafræðingur og sviðsstjóri Miðstöðvar norðurslóða við Harvard háskóla í Boston í Bandaríkjunum. 

Ekki hinn hefðbundi repúblikani

Halla Hrund segir í viðtali við Spegilinn að það sé mikilvægt að gera greinarmun á milli hins hefðbundna repúblikana og þeim sem að réðust inn í þinghúsið. „Það er auðvitað mjög lítill hópur" segir hún. „ Eins og við höfum séð á umræðunni frá því í gær að þá fordæma langflestir þessa innrás og ofbeldi og þeir tilheyra hinni hefðbundnu flokkslínu repúblikana.

Ég hef verið að hugsa að ég hitti Jeff Bush þegar hann var í forvali  repúblikana árið 2016. Þá var verið að bera hann saman við George Bush bróður hans, forsetatíð hans og hvernig forseti hann yrði ef hann yrði útvalinn forsetaefni repúblikana á þeim tíma. Trump var síðan valinn. En maður sér, þegar Bush fjölskyldan og hennar áherslur eru bornar saman við Trump í dag, hversu ólíkt þetta er. Trump er inni í allt öðru mengi þegar kemur að orðræðu, hvernig hann hefur leyft sér að hvetja beinlínis til ofbeldis og mótmæla. Þegar horft er til þess þá ætti ekki að koma á óvart að þetta varð niðurstaðan í gær. En eins og ég segi, þegar maður ber saman fyrrum forseta Repúblikanaflokksins og Trump þá sér maður að þarna er eðlismunur á". 

Samfélagsmiðlar bera mikla ábyrgð

Manni sýnist eins og þessi hópur sem var þarna á ferðinni í gær að hann lifi í eigin heimi. Aflar hann sér upplýsinga eða heyrir hann andstæð viðhorf?

„Þú kemur inn á efni sem að mörgum er hugleikið og sem að tengist þeirri upplýsingaóreiðu sem er til staðar, ekki bara í Bandaríkjunum, heldur í heiminum almennt. Þetta var áberandi í tengslum við forsetakosningarnar og tengist samfélagsmiðlum. Bæði Twitter og Facebook hafa lokað tímabundið á Trump í hálfan og heilan sólarhring. Við sjáum aðra miðla eins og Tik-Tok og fleiri sem hafa komið með upplýsingar þar sem hvatt er til óeirða. Þetta hefur höfðað til ákveðinna hópa og ég myndi segja að ábyrgð samfélagsmiðla og löggjafar í kringum slíka miðla er töluverð og eitthvað sem við verðum að skoða.  Einnig almennt hvernig við horfum á framtíð pólitískrar umræðu".

Leiðtogar flokksins verða að stíga fram 

„Síðan held ég að það sé líka mikilvægt að hugsa um þá sem þöglir eru innan Repúblikanaflokksins. Flestir af þingmönnum flokksins voru að fara að staðfesta forsetakosningarnar í þinginu í gær. Það er mikil ábyrgð flokksins að tala á móti því þegar talað er um að verið sé að stela kosningum og þegar verið er að hvetja til ofbeldis. Það er kannski kominn mjög sterkur tímapunktur þar sem skiptir máli að ólíkir leiðtogar Repúblikanaflokksins dragi skýra línu á milli þess sem flokkurinn stendur fyrir og þess sem Trump hefur verið að hvetja til". 

Demókratar þurfa að ná til sem flestra

 „Síðan held ég líka, að af því að demókratar eru í ótrúlegri stöðu, með báðar deildir þingsins og möguleika til að gera mikið, að þeir mega ekki gleyma því að í gær sáum við hóp fólks, kjósenda, sem þeir ná ekki til.  Ef við ætlum að sjá friðsæl Bandaríki þá skiptir máli að demókratar leggi vel við hlustir og reyni að ná til sem flestra, reyni að draga úr þessari pólariseringu sem við sjáum í dag". 

Þarf að fara í naflaskoðun

Hver verður framtíð Repúblikanaflokksins með Trump í forsæti?

„Það fer allt eftir því hvernig málin snúast núna, hvernig flokkurinn svarar því sem gerðist í gær og hvernig hann nær í raun og veru að horfa fram á við. Það er alls óvíst að hann geri það. Hins vegar þarf flokkurinn að fara í mikla naflaskoðun. Ég held að þegar Repúblikanaflokkurinn er að velta fyrir sér framtíð sinni, þá þarf hann líka að horfa til þessa hóps, sem hann missti í þessum kosningum út af þeim öfgum sem við höfum séð í stjórnartíð Trumps" segir Halla Hrund Logadóttir.