Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Pence varaforseti segir ofbeldi aldrei hafa betur

epa08923242 Vice President Mike Pence presides over a Joint session of Congress to certify the 2020 Electoral College results on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 06 January 2021.  EPA-EFE/Erin Schaff / POOL
 Mynd: EPA-EFE - The New York Times POOL
Mike Pence varaforseti Bandaríkjanna setti þingfund að nýju skömmu eftir klukkan eitt að íslenskum tíma með þeim orðum að óeirðaseggirnir sem ruðst hefðu inn í þinghúsið og valdið þar óskunda hefðu ekki sigrað.

„Ofbeldið hefur aldrei sigur,“ sagði varaforsetinn „og það sigrar ekki heldur í dag. Frelsið sigrar og þinghúsið er enn hús fólksins í landinu. Hefjumst handa.“ Þar á varaforsetinn við staðfestingu sameinaðs þings á kjöri Joe Bidens sem næsta forseta Bandaríkjanna.

Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í Öldungadeildinni tók undir og sagði að mistekist hefði að skaða lýðræðið. Chuck Schumer leiðtogi Demókrata í deildinni krefst ákæru á hendur þeim sem hann kallar innanlandshryðjuverkmenn og ásakar Donald Trump forseta um að hafa kveikt ófriðarbál með orðum sínum og lygum.