Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Nýr búnaður til að vakta skriðuhættu settur upp

07.01.2021 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Veðurstofan vinnur nú að því að setja upp nýja vöktunarbúnað til þess að auka nákvæmni mælinga vegna skriðufalla á Seyðisfirði. Vöktun hlíðanna ofan bæjarins hefur þegar verið efld umtalsvert frá því sem var áður en skriðurnar féllu á bæinn í desember.

Fylgst er með hreyfingu jarðlaga og vatnshæð í borholum í hlíðinni, því hvort tveggja gefur vísbendingar um skriðuhættu. Unnið er að því að auka tíðni og nákvæmni mælinga enn frekar með sjálfvirkum búnaði og hafa sérfræðingar Veðurstofunnar og samstarfsaðilar unnið hörðum höndum að undirbúningi frekari vöktunar ásamt uppsetningu á nýjum vöktunarbúnaði. Þetta kemur fram í frétt á vef Veðurstofu Íslands.

Nýr búnaður til mælingar á hreyfingu jarðlaga kom til landsins á mánudag og verður uppsetningu þess búnaðar lokið í vikunni. Sérfræðingar Veðurstofunnar  leggja jafnframt til að búnaður sem nýtist til að kortleggja óstöðugar hlíðar á Íslandi verði prófaður á Seyðisfirði.

Vatnsþrýstingur í hlíðinni hefur nú lækkað niður undir fyrra horf. Talið er að jarðlög sem los kom á í skriðuhrinunni hafi að mestu sest í sínar fyrri skorður og að nýtt úrkomutímabil þurfi til þess að skapa hættu á skriðuföllum á ný.

Enn er þó talin hætta á að hrunið geti úr skriðusárum en ekki að slík skriðuföll nái byggðinni utan svæðisins þar sem stóra skriðan féll. Ekki hefur orðið vart við skriðuföll úr hlíðinni ofan Seyðisfjarðar frá því fyrir jól.