Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Leið sem demókratar horfa á til að ná sér niðri á Trump

07.01.2021 - 21:25
Silja Bára Ómarsdóttir, stjórnmálafræðingur og sérfræðingur í bandarískum stjórnmálum fór ítarlega yfir stöðuna í bandarískum stjórnmálum eftir óeirðir gærdagsins í þinghúsinu í Washington í Kastljósi í kvöld.

Álitamál hver kallaði út þjóðvarðliðið

Það fer af stað þessi atburðarás þegar ráðist er inn í þinghúsið. Pence og Pelosi fara að tala saman því það þarf að kalla út aukna gæslu, þjóðvarðliðið. Samkvæmt heimildum bandarískra fjölmiðla er Trump að tefja það ferli, vill ekki svara, og sagan er sú að Pence og Pelosi hafi einhvern veginn kallað það út. Er það hreinlega löglegt?

„Ef þau gerðu það er það samkvæmt mínum skilning brot á stjórnskipan Bandaríkjanna, það er forsetinn sem þarf að bregðast við þessu, það er Bowser, borgarstjórinn í Washington D.C. Hann ætti að veita varnarmálaráðherra heimild til að bregðast við því ákalli.

Fjölmiðlar telja að það hafi í raun verið Pence sem gaf þessa skipun þá er hann að taka fram fyrir hendurnar á forseta og sölsa undir sig völd. 

Dagurinn í gær var fyrsti dagurinn í valdatíð Donalds Trump þar sem Pence skildi sig frá Trump að einhverju leyti þannig að það er alveg mögulegt.  Það er alvarlegt ef svo er þó ég telji að það hafi verið heilladrjúgt skref,“ sagði Silja Bára.

Ákall frá demókrötum um að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar

Það þarf meirhluta ríkisstjórnarinnar til að samþykkja að virkja 25. viðauka stjórnarskrárinnar. Þetta ákvæði er sett til að bregðast við því ef að forseti lendir í slysi, skotárárs, er svæfður vegna uppkskurðar að þá færast völdin frá forseta til varaforseta. 

Silja Bára segir óljóst hvort varaforseti verði forseti eða fái forsetavald. 

Ef Pence varaforseti og helmingur ráðherra eru sammála um að setja Bandaríkjaforsetann af með því að beita 25. viðauka stjórnarskrárinnar tekur Pence við valdataumunum. Heldurðu að það séu einhverjar líkur á að þetta gerist? 

„Það er auðvitað eitt flækjustigið í viðbót að Trump hefur rekið svo marga ráðherra að það gæti verið vafasamt ver er túlkaður sem staðfestur ráðherra, margir eru starfandi frekar en skipaðir og ekki staðfestir af öldungadeild, segir Silja Bára.

Það er síðan aukaákvæði inn í þessari 25. grein stjórnarskrár sem segir að það megi líka vera nefnd skipuð af þinginu og varaforseti sem setja forsetann af.“ Þessa leið vilji Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, fara. „Þetta hefur aldrei verið gert nema af læknisfræðilegum ástæðum,“ sagði Silja Bára. 

„Þetta er auðvitað ein leið sem demókratar horfa á til þess að ná sér niðri á Trump að sýna að hann hafi ekki átt að vera forseti.“