Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hvernig væri lífið ef það væri dregið fyrir himininn?

Mynd: cc / cc

Hvernig væri lífið ef það væri dregið fyrir himininn?

07.01.2021 - 15:23

Höfundar

Við þekkjum það öll að verða uppnumin yfir náttúrufegurð. Að staldra við, virða fyrir okkur fallegt sólarlag, tignarleg fjöll, glitrandi hafflöt eða norðurljós og missa andann í örlitla stund. En hvaða máli skiptir náttúrufegurð í raun? Guðbjörg R. Jóhannesdóttir gaf nýverið út safn ritgerða um fagurfræði náttúrunnar og gildi þeirrar fegurðar. Ritgerðasafnið ber yfirskriftina: Vá!

Snemma í mánuðinum birtust á himninum glitský sem fljótlega veggfóðruðu alla samfélagsmiðla því allir vildu deila fegurðinni með vinum sínum og fylgjendum. Það er sammannlegt að dást að náttúrunni en samt virðist sem hin kunnuglega náttúrufegurð hafi ekki vægi þegar kemur að ákvörðunartöku í því sem snýr að náttúru og náttúruvernd.

Út er komið nýtt rit frá Háskólaútgáfunni, bók sem kallast Vá! og hefur að geyma safn ritgerða um fagurfræði náttúrunnar. Greinarnar fjalla allar á einn eða annan hátt um samband okkar í veruleikann sem verður til í gegnum upplifun okkar á feguð og fagurferðilega skynjun eins og höfundurinn, Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, kallar þá skynjun. Guðbjörg er nýdoktor í heimspeki við Háskóla Íslands og lektor við Listaháskólann. Hún kíkti í Víðsjá á Rás 1 og sagði frá fagurfræði náttúrunnar.

Í inngangsorðum segir Guðbjörg frá því hvernig hún fylgdist með umræðunni um Kárahnjúkavirkjun þegar hún var í framhaldsnámi í umhverfisheimspeki í Bretlandi. Þá rann upp fyrir henni að kjarni þeirrar deilu væri að náttúrufegurð væri ekki tekin til greina við ákvarðanatöku stjórnvalda. Gildum fegurðar var þannig hafnað á þeim forsendum að þau væru of huglæg og að fegurð gæti ekki flokkast undir rök, því fegurð væri of persónuleg. Henni fannst þetta gildismat skjóta skökku við og fór að velta málunum fyrir sér.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Guðbjörg segir fegurð bæði hug- og hlutlæga.

Draumaland Andra Snæs

Þetta var árið 2005 um haustið. Hún hafði verið að fylgjast með Kárahnjúkaumræðunni en ekki verið djúpt sokkin í hana. Um jólin það ár kom Draumaland Andra Snæs Magnasonar út og hún las hana meðfram námskeiði sem hún var í um umhverfisfagurfræði. „Ég var að kynnast fagurfræði í fyrsta skipti þarna þar sem verið var að fjalla um þessa upplifun af náttúrunni og gildi hennar. Hlutverk þessara gilda í ákvarðanatöku í umhverfismálum.“

Gildi landslagsins þótti ekki skipta máli

Hún áttaði sig á því að fólkið sem barðist á móti virkjuninni notaði það sem rök hve mikil náttúrufegurð væri á svæðinu og notuðu ljósmyndir því til stuðnings. En það þótti ekki nóg. „Auðvitað er fólk líka að tala um aðra hluti eins og umhverfisáhrifin sjálf og áhrif á dýralíf og þess háttar, en þessi partur sem sneri að gildi landslagsins skipti greinilega miklu máli.“ Á sama tíma varð henni ljóst að það var ekkert rými til að ræða þátt fegurðar af neinni alvöru.

Ráðherra sá ekki neitt fallegt við Kárahnjúka

Guðbjörg minnist þess að þáverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, hafi í fréttaviðtali sagst ekki sjá neina sérstaka náttúrufegurð á Kárahnjúkasvæðinu, eins og þá sem virkjanaandstæðingar voru að tala um. Guðbjörg hafi verið afar hugsi yfir ummælunum og hvað þau gæfu í skyn um gildi fegurðar. „Þegar þú segir: Ég sé enga náttúrufegurð, þú sérð hana kannski, þá ertu kannski að segja að þessi rök og gildi séu bara eitthvað sem einum finnist og öðrum ekki. Þar af leiðandi sé ekki hægt að byggja haldbæra ákvarðanatöku á þessu.“

Þetta atriði tengist samkvæmt Guðbjörgu annarri umræðu, um tilfinningarök, sem oft eru rædd. „Það er kannski hægt að kalla þetta tilfinningarök því auðvitað er upplifun á fegurð á einhvern hátt tengd tilfinningum,“ segir hún.

Fegurðin tengd kven- og líkamleika

En náttúrufegurð er þó eitthvað stærra, meira og sammannlegra og röksemdarfærslan um um tilfinningarök tengist ákveðinni hýrarkíu, þar sem hið kvenlæga sé alltaf sett skör neðar en það karllæga. „Fegurðarupplifun hefur í vestrænni hugmyndasögu verið mjög tengd kven- og líkamleika,“ segir Guðbjörg. „Það er hálfgert tabú, bara tilfinningar sem við eigum ekki að ræða neitt þrátt fyrir að að fegurð í náttúrunni sé eitthvað sem allir á Íslandi og víðar hafi upplifað.“

Vitund og viðfang ekki aðskilin

Í hugmyndasögunni er ýmist talað um fegurð sem algjörlega afstæða, persónulega og huglæga eða að hún sé í hlutunum, samanber gullinsnið. „En það er svo smættandi að tala um þetta sem bara huglægt eða hlutlægt mat, þetta snýst um sambandið sem við eigum við það sem við erum að skynja.“

Lausnin sé því fólgin í að horfa frá þessari tvíhyggju og skilja að vitund og viðfang séu ekki aðskilin. „Þetta hjálpar okkur að skilja þessi tengsl og þetta flæði á milli okkar og veruleikans.“

Hvernig myndum við bregðast við ef himininn væri tekinn burt?

Norðurljós, glitský og sólsetur flæða gjarnan um samfélagsmiðla okkar því við dáumst að náttúrunni og viljum deila fegurðinni hvert með öðru. Guðbjörg færir rök fyrir því í bókinni að okkur beri að hlusta á þetta „vá“ sem vaknar innra með okkur og gefa því athygli og vægi. „Við segjum oft: Vá, hvað þetta er fallegt, en við veitum því ekki athygli hve miklu máli þetta skiptir okkur,“ segir hún og tekur dæmi. „Ímyndaðu þér að það væri einhver ótrúleg tækni sem gæti bara dregið fyrir himininn og þú fengir ekki að sjá glitský. Hvernig myndum við bregðast við?“

Halla Harðardóttir ræddi við Guðbjörgu R. Jóhannesdóttur í Víðsjá á Rás 1.