Eineggja tvíburar ekki með eins erfðamengi

07.01.2021 - 19:39
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Ný rannsókn íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að erfðamengi eineggja tvíbura eru ekki eins, líkt og gengið hefur verið út frá hingað til. Kári Stefánsson segir niðurstöðurnar geta breytt túlkun á eldri rannsóknum um áhrif erfða og umhverfis. 

Það getur verið erfitt að þekkja eineggja tvíbura í sundur útlitslega og yfirleitt hefur verið gengið út frá því að erfðamengi eineggja tvíbura séu eins. En vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa komist að annarri niðurstöðu.

„Nú erum við búin að sýna fram á að  það eru ýmsar stökkbreytingar sem finnast í öðrum af eineggja tvíburum og ekki hinum. Sem geta skýrt töluverðan mun á tvíburunum,“ segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Niðurstöðurnar voru birtar í vísindagrein Nature Genetics í dag. Vísindamennirnir komust að þessari niðurstöðu með því að leita að stökkbreytingum á fyrstu dögum fóstursins. Um 390 tvíbura-pör tóku þátt í rannsókninni, ásamt fjölskyldum þeirra. Erfðaefni þeirra allra var raðgreint. „Á þann hátt þá getur maður komist að raun um hvenær stökkbreytingin átti sér stað. Á hvaða aldri fóstursins. Á þann hátt má nota þessar stökkbreytingar að vissu leyti til þess að ráða gamlar gátur um það hvernig mannsfóstrið þroskast á fyrstu dögum fóstursins,“ segir Kári.

Eineggja tvíburar hafa verið notaðir til að skilja milli áhrifa erfða og umhverfis.  „Þá verður þú að nota eineggja tvíburana á miklu varlegri hátt og verða að ganga úr skugga um að það séu ekki stökkbreytingar að baki þessum svipgerðum sem menn eru að skoða.“

Gæti þetta breytt þá eldri rannsóknum? „Þetta getur breytt túlkun á eldri rannsóknum. Og hlýtur að gera það.“

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV