Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Byko og gamla Húsasmiðjan brutu samkeppnislög

Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Hæstiréttur staðfesti í dag dóm þess efnis að Byko hafi brotið gegn samkeppnislögum og einnig ákvæði EES- samningsins með umfangsmiklu ólöglegu samráði við gömlu Húsasmiðjuna.

Málið snýst um verðsamráð á mikilvægum byggingavörum Árið 2015 komst Samkeppniseftirlitið að sömu niðurstöðu, og lagði 650 milljón króna sekt á Norvik, móðurfélag Byko.

Sú ákvörðun var kærð til ákærunefndar samkeppnismála sem komst að þeirri niðurstöðu að Byko hefði tekið þátt í ólögmætu verðsamráði og brotið gegn samkeppnislögum. Hins vegar féllst nefndin ekki á að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Einnig taldi nefndin að brot Byko hafi ekki verið jafn alvarleg og Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar. Taldi nefndin því hæfilegt að lækka sekt Byko úr 650 milljónum króna í 65 milljónir króna.

Þaðan fór málið til dómstóla. Samkeppniseftirlitið taldi að áfýjunarnefnd samkeppnismála hefði rangtúlkað EES- samninginn. Þá hafi nefndin ekki lagt rétt mat á alvarleika brotanna. 

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í júní árið 2018 á að brot Byko hefðu verið alvarleg og hækkaði sekt félagsins í 400 milljóna króna. Einnig féllst dómurinn á það að ákvæði EES-samningsins hefðu verið brotin. Byko og Norvik skutu málinu til Landsréttar. æI júní árið  2019 komst Landsréttur að þeirri niðurstöðu að Byko hefði framið alvarleg brot á samkeppnislögum. Landsréttur taldi brotin hins vegar ekki jafn umfangsmikil og jafnframt að ekki hefði verið sýnt fram á brot á EES-samningum. Sökum þess var sektin lækkuð í 325 milljónir króna.

Hæstiréttur heimilaði Samkeppniseftirlitinu að áfrýja dómi Landsréttar. Í dómi Hæstaréttar í dag er fallist á það með Samkeppniseftirlitinu að samráðsbrot Byko hafi verið alvarlegra en Landsréttur lagði til grundvallar. Einnig var fallist á að Byko hefði brotið gegn EES-samningum að sektin skyldi hækkuð.

Dóminn má sjá hér í heild sinni. 

Þar segir meðal annars að brot Byko fólust í reglubundnum og tíðum samskiptum á milli forsvarsmanna Byko og gömlu Húsasmiðjunar:

„þar sem meðal annars var aflað upplýsinga um verð, þeim miðlað áfram til stjórnenda fyrirtækjanna og fjallað um þær á fundum framkvæmdastjórnar gagnáfrýjandans Byko ehf. Þá skiptust stjórnir gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. á upplýsingum í febrúar 2010 um afkomu og rekstur þess síðarnefnda og hugmyndum um breytingar á verðstefnu þess á haustmánuðum 2010. Auk þess var um ólögmætt samráð gagnáfrýjandans Byko ehf. og Húsasmiðjunnar ehf. að ræða í tilraun þeirra til að fá Múrbúðina ehf. til þess að taka þátt í verðsamráðinu. Loks liggur fyrir endurrit símtals sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs gagnáfrýjandans Byko ehf. átti við starfsmann Húsasmiðjunnar ehf. 28. febrúar 2011 þar sem hvatt var til víðtæks verðsamráðs. Í þessu símtali kemur fram einbeittur vilji til alvarlegs samráðs og fólst í því gróft brot gegn 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins. Öll brot gagnáfrýjandans Byko ehf. voru alvarleg og fólu í sér skipulagt og kerfisbundið samráð milli fyrirtækja sem voru nánast einráð á þeim markaði sem brotin tóku til.“  segir í dómnum.

Ástæða þess að gamla Húsasmiðjan var ekki sótt til saka er að árið 2014 lauk þeirra þáttur málsins með dómssátt þar sem rekstraraðilar Húsamiðjunar, viðurkenndu að gamla Húsasmiðjan hefði átt í ólöglegu samráði við Byko. Sú stjórnvaldssekt hljóðaði upp á 325 milljónir króna. Byko lét aftur á móti reyna á málið fyrir dómstólum.

Fréttin hefur verið uppfærð.