Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Árás á lýðræðið „að áeggjan fráfarandi forseta“

07.01.2021 - 13:30
Mynd: RÚV / RÚV
Í gær var gerð árás á lýðræðið að áeggjan Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um áhlaupið á þinghúsið í Washington í gærkvöldi. Fjórir eru látnir eftir að vopnaðir stuðningsmenn Trumps ruddust inn í þinghúsið að loknum fjöldafundi Trumps.

„Auðvitað var mér gríðarlega brugðið þegar ég sá fyrstu tíðindi af þessu. Þarna sjáum við þessa merku stofnun sem er að fara að fullnusta niðurstöðu lýðræðislegra kosninga. Og á hana er ráðist að áeggjan fráfarandi forseta,“ segir hún. 

Hún segist hafa mikla trú á lýðræðinu í Bandaríkjunum og að það hafi skipt miklu máli hvernig þingið brást við. „Það er öllum brugðið en það er auðvitað mikilvægt að þingið tók síðan aftur til starfa og lauk sínum verkum og stóð í lappirnar hvað það varðar. Þarna varð manntjón og manni er gríðarlega brugðið að sjá andlýðræðislega aðgerð í slíkri árás,“ segir hún. „Það er gríðarlega alvarlegt að trufla störf þingsins,“ bætir hún við. 

Þó hafi atburðir gærkvöldsins ekki endilega komið á óvart. „Það er auðvitað búið að ræða mikið hvernig orðræða þessara aðila hefur þróast í andlýðræðislega átt,“ segir hún.